131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Lífeyrisskuldbindingar Ríkisútvarpsins.

119. mál
[13:56]

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Fyrirspurnin er svohljóðandi:

Hvað er að frétta af tilraunum menntamálaráðherra til að létta af Ríkisútvarpinu lífeyrisskuldbindingum sem á það voru lagðar árið 1993?

Ég hef tvisvar spurt um þetta síðan ég var kosinn á þing, annars vegar 15. október í fyrra — þá var til svara Tómas Ingi Olrich, þáverandi menntamálaráðherra — og síðara skiptið 12. febrúar, hygg ég það hafi verið. Þá var til svara núverandi hæstv. menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.

Svörin tvö á síðasta þingi voru nokkuð samhljóða en nú er liðinn töluverður tími. Kominn er miður nóvember og liðnir einir níu mánuðir síðan síðast var spurt. Hæstv. menntamálaráðherra lýsti því yfir í upphafi ferils síns að Ríkisútvarpið, skipulag þess og fjármál, væri eitt af forgangsverkefnum sínum þannig að nú er að vænta betri svara en áður hefur verið unnt að gefa í þessu máli.

Þess skal getið að samtals nema þessar skuldbindingar um tveimur og hálfum milljarði. Skuldabréf hefur verið útbúið til u.þ.b. 2024 og árleg greiðsla Ríkisútvarpsins af því eru sennilega rúmar 200 millj. kr.

Aðrar undarlegar skuldbindingar Ríkisútvarpsins tengjast þessu máli auðvitað sem erfiða því störf sín, tengsl þess við Sinfóníuhljómsveitina og síðan það sem hæstv. menntamálaráðherra vakti einmitt máls á hér í febrúar, lífeyrismál starfsmanna Sinfóníuhljómsveitarinnar sem þá var verið að athuga. Útlit var fyrir að Ríkisútvarpið þyrfti að hluta til að taka þau á sig líka. Ég vil í framhjáhlaupi spyrja hvernig því máli líði og ég vænti þess að hæstv. menntamálaráðherra geti einnig gefið svar við því.