131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Lífeyrisskuldbindingar Ríkisútvarpsins.

119. mál
[14:01]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Merði Árnasyni þessa fyrirspurn. Hann er iðinn við kolann og kemur árvisst upp með þessar spurningar. Það er ljóst að hæstv. menntamálaráðherra talar sem véfrétt um það sem væntanlegt er inn á borð þingmanna. Það mun vera frumvarp, eins og okkur var tilkynnt í upphafi vetrar. Um það verður ekkert sagt fyrr en það liggur á borðinu.

Mig langar aðeins til að orða eina hugsun, hæstv. forseti. Hún er sú að skuldbindingar Ríkisútvarpsins gagnvart Sinfóníuhljómsveitinni eru umtalsverðar. Það væri möguleiki að gera Sinfóníuhljómsveitina að sjálfstæðri opinberri stofnun en verði það gert verður að tryggja að það verði gert með fullri reisn.

Verði það hins vegar ekki gert þá er enn þá inni í myndinni að það gæti gagnast Ríkisútvarpinu að eiga sterk og náin tengsl við Sinfóníuhljómsveitina. Gagnkvæm náin tengsl við Sinfóníuhljómsveitina þurfa ekki að vera nema af hinu góða. En peningarnir eru alfa og ómega í þessu máli, ríkisvaldið verður að tryggja þá.