131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Lífeyrisskuldbindingar Ríkisútvarpsins.

119. mál
[14:04]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Þeir aðilar sem háttvirtur fyrirspyrjandi kom inn á undir lok ræðu sinnar munu að sjálfsögðu koma að málefnum Ríkisútvarpsins og umræðum um Ríkisútvarpið þegar þar að kemur, svo einfalt er það. Umræðan verður öllum opin og menn eiga ekki að reyna að snúa út úr því.

Ég vil hins vegar taka undir það með hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur að tengsl Ríkisútvarpsins við Sinfóníuhljómsveitina eru mjög þýðingarmikil. Það er hins vegar spurning hvort þeim er réttilega fyrir komið eins og þau eru núna. Ég vil miklu frekar líta á það sem tækifæri, endurskipulagninguna sem er í bígerð á hlutverki Ríkisútvarpsins, til að sjá um leið hvernig þeim mikilvægu tengslum Ríkisútvarpsins og Sinfóníuhljómsveitarinnar verði hagað til framtíðar. Við verðum auðvitað að hugsa öll þessi mál fram í tímann.

Í dag er hluti af þeim réttindum sem Ríkisútvarpið hefur m.a. að taka upp tónleika Sinfóníuhljómsveitarinnar og útvarpa þeim. Það hefur Ríkisútvarpið gert með myndarbrag. Hugsanlega mætti sjá það fyrir sér í framtíðinni að Ríkisútvarpið mundi engu að síður halda þeim upptökum áfram gegn gjaldi til Sinfóníuhljómsveitarinnar.

En ég vil undirstrika, frú forseti, að ég sé ákveðin tækifæri felast í því að fara í endurskipulagningu á Ríkisútvarpinu til að aflétta þeim byrðum sem eru útvarpinu erfiðar. Í því ljósi bind ég vonir við að hér í þingsal fari fram öflug, frjó og kröftug umræða um þau mikilvægu málefni sem lúta að Ríkisútvarpinu.