131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Símenntun.

133. mál
[14:07]

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Á síðustu árum hafa skólamenn, verkalýðshreyfing, atvinnurekendur og stjórnvöld tekið sig saman um að auka hlut símenntunar og endurmenntunar í landinu. Þetta hefur heppnast vel og er ánægjulegt að heimsækja fræðslustöðvar og skóla á þessu sviði, bæði á landsbyggðinni og hér á höfuðborgarsvæðinu, og verða var við þann hug sem einkennir starf nemenda, kennara og forstöðumanna í þessum efnum.

Ríkisstjórnin hefur lagt fram sitt liðsinni að þessu leyti og það skal þakkað. Hún hefur haft til þess undantekningarlausan stuðning hér á þinginu og má minna á, í tilefni af þessari fyrirspurn, að Björn Bjarnason, núverandi hæstv. dómsmálaráðherra og þáverandi menntamálaráðherra, skipaði sérstaka stefnumótunarnefnd árið 1997 sem skilaði af sér skýrslu árið eftir. „Símenntun – afl á nýrri öld“ hét hún. Síðan tók við sérstök verkefnisstjórn sem falið var að koma í verk helstu tillögum nefndarinnar í 11 liðum. Þar á meðal voru þessir hér, með leyfi forseta:

„Fylgja eftir tillögum um annað tækifæri fullorðinna til náms. ... Leita leiða til að auka samráð og samstarf skóla og atvinnulífs um símenntun. ... Ræða við fulltrúa háskóla um sveigjanlegra háskólanám fyrir fullorðna.“

Líður nú og bíður en ríkisstjórnin gerði tillögur skýrslunnar að sínum. Mér verður þá mótmælt á eftir ef það er ekki svo að hún hafi þá stefnu í símenntunarmálum sem þarna kom fram.

Í haust berast síðan þær fréttir úr framhaldsskólum og háskólum að vegna fjárskorts, þrenginga og ákvörðunarleysis undanfarin ár hafi skólastjórnendur tekið þá afstöðu að þrengja einmitt að þeim hópum sem leita sér menntunar í samræmi við þessa skýrslu og þessa stefnumótun. Í svari hæstv. menntamálaráðherra á þskj. 319 við fyrirspurn hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar í haust kemur fram að Háskóli Íslands vísaði við upphaf skólaársins 105 nemendum frá og Háskólinn á Akureyri 72 nemendum. Það kemur ekki fram hverjir þetta eru en leiða má af líkum að annars vegar sé þetta fólk með stúdentspróf af starfsbrautum, próf sem ekki reyndust vera sá lykill að framhaldsmenntun sem lofað var. Hins vegar sé þetta fólk án stúdentsprófs en með þann þroska og reynslu sem heimilar skólanum að gera undantekningu frá prófkröfunni, sem hefur komið mörgum vel.

Í þessari fyrirspurn kemur fram að því miður treysti hæstv. menntamálaráðherra sér ekki til að gefa það upp eða láta kanna hvernig ástandið væri í framhaldsskólunum — en ég var hér að tala um háskólana. Þar tókst að vísu að koma fyrir öllum nýnemum en af fréttum mátti ráða að þeir hefðu gengið af sem ætluðu að hefja nám á ný, einmitt sá hópur sem stefnumótunin gekk út á, eftir tafir eða brottfall af einhverjum sökum. Meðal ástæðna sem ráðherrann færir fyrir því, sem eru flestar bírókratískar og tæknilegar, er þessi:

„Fáir úr hópi eldri umsækjenda höfðu samband við ráðuneytið sl. sumar vegna synjunar á skólavist.“

Er þar með gert ráð fyrir því að nemendur sem hafa farið frá námi og hyggjast hefja það aftur en fá nei hafi sérstaklega samband við ráðuneytið. Það eru ekki mjög fín rök.

Þess vegna kem ég með þessa fyrirspurn. Hvernig hangir þetta saman, fréttirnar frá í haust og stefnumótun ríkisstjórnarinnar frá fyrri tímum um símenntun í landinu?