131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Símenntun.

133. mál
[14:17]

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég þakka bæði hv. menntamálaráðherra og hv. þingmönnum fyrir þessa ofurlitlu umræðu um símenntun og tek undir að við þurfum að koma ýmsum hlutum betur fyrir hér. Það er kannski næsta verkefni svona ef maður lítur stórt á. Við höfum komið upp mörgum miðstöðvum og leiðum í þessu efni, en þurfum nú að koma þeim betur fyrir og tryggja að svo verði til frambúðar.

Það gerist hins vegar auðvitað ekki nema menn hafi eitthvert samhengi í heildarstefnu sinni. Það gengur ekki að bjóða annars vegar upp á símenntun og segja mönnum að sækja sér nám og aukinn fróðleik í samræmi við þá þróun sem við erum vonandi öll sammála um að er að verða hér í atvinnulífi í framtíðinni, og síðan að loka fyrir þeim hinum hefðbundnu skólum sem eru hér til og verða alltaf kjarninn í menntun okkar.

Þess vegna, af því hæstv. menntamálaráðherra sagði í upphafi máls síns að hún ætlaði að láta sér nægja að svara fyrirspurn sem lægi á þingskjalinu, þá vil ég lesa hana aftur og biðja um svar við henni, t.d. svarið já eða svarið nei. Fyrirspurnin var svona:

„Telur ráðherra að þær tillögur sem ríkisstjórnin samþykkti í ágúst 1998 um átak í eflingu símenntunar, að fram komnu áliti sérstakrar nefndar um þau efni, séu í samræmi við það að gert hefur verið erfiðara en áður að hefja að nýju nám í framhaldsskóla og að kröfur um undirbúning fyrir háskólanám eru að þrengjast?“

Til dæmis svarið já, eða svarið nei.