131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Fiskvinnslunám.

150. mál
[14:21]

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Á síðasta þingi spurði ég um fiskvinnslunám, en það er gríðarlega mikilvægt að tryggja gæði og öryggi matvæla og tryggja gæði íslensks sjávarfangs. Í svari hæstv. ráðherra kom fram að unnið væri að þessum málaflokki í ráðuneytinu. Þess vegna langar mig að spyrja hvernig þeirri vinnu miði?

Það er óneitanlega mjög sérstakt hjá þjóð sem lifir á sjávarfangi — því þetta er einn mikilvægasti atvinnuvegur þjóðarinnar, ef ekki sá langmikilvægasti eins og t.d. hefur komið fram hjá háskólanum — að ekki skuli vera nein menntun í þessari atvinnugrein. Það hlýtur að vera forgangsverkefni hjá yfirmanni menntamála í landinu að tryggja að sú menntun verði sem best. Einnig verður að líta til fjölbreytni í menntun. Ég gæti vel trúað að fiskvinnslunám sé dýrt ef litið er til einhverra reiknilíkana. En það er mjög dýrt fyrir þjóðfélagið ef hætt verður að mennta fólk í þessari atvinnugrein. Þetta er eitt af því sem hæstv. menntamálaráðherra ætti að átta sig á og ég á von á, ef farið hefur verið í þessa vinnu í ráðuneytinu, að menn komist að þeirri niðurstöðu að mikil verðmæti hljóti að vera fólgin í því að mennta hæfa stjórnendur í fiskvinnslu. En margir af yfirmönnum í fiskvinnslu, framleiðslustjórar, gæðastjórar, eru einmitt menntaðir úr fiskvinnsluskólunum sem búið er að leggja niður.

Þess vegna væri mjög fróðlegt að heyra hjá hæstv. ráðherra hvernig þeirri vinnu miðar sem hún boðaði á síðasta þingi að yrði unnin í ráðuneytinu.