131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Fiskvinnslunám.

150. mál
[14:29]

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég tel að þetta mál þoli enga bið. Við þurfum að líta til þess hvernig við náum meira úr sjávarfanginu og ein leiðin til þess er menntun. Menntun í sjávarútvegi ætti að vera stolt íslenskrar þjóðar. Við lifum á fiskveiðum og þurfum að mennta fólk til þeirra verka en það er enginn í þeirri grein. Á sama tíma og báðir fiskvinnsluskólar landsins eru lagðir niður eru byggðir upp fjórir skólar sem kenna lögfræði. Það er ágætt, en þetta eru svolítið skrýtnar áherslur hjá þjóð sem lifir af fiskvinnslu.

Við ættum að spyrja okkur: Hvað veldur þessu? Hvað veldur því, ef rétt er, sem ég ætla ekki að fullyrða, að það hafi eingöngu verið dræm aðsókn að Fiskvinnsluskólanum á Dalvík sem réði því að hann var lagður niður? Ég tel að þar hafi ýmsir aðrir hlutir einnig ráðið miklu. Hvað veldur því að ekki er meiri áhugi á þessu námi en raun ber vitni? Það er þessi stöðnun sem orðið hefur í sjávarútveginum. Stöðnun í sjávarútvegi er vegna þess að það verður engin nýliðun í atvinnugreininni. Góð leið til að auka fiskvinnslunám væri t.d. að opna atvinnugreinina og láta markaðslögmálin ráða meira en nú er þannig að allur fiskur færi meira og minna á uppboð. Þá mundu örugglega margir vilja mennta sig til þeirrar atvinnugreinar og gera meira úr fiskinum en við nú gerum.