131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Fiskvinnslunám.

150. mál
[14:31]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég get tekið undir það með hv. fyrirspyrjanda að lykilorðið í dag er menntun. Hin lykilorðin í dag, ásamt menntun, eru gæði náms. Menntun og gæði eru það sem við þurfum að hafa efst í huga þegar við fjöllum um menntakerfið í heild sinni.

Ég mótmæli því sem fram kom í máli hv. þingmanns að áhersla í menntamálum hafi verið bagaleg á síðustu árum. Ég mótmæli því harðlega. Við höfum aldrei haft fleiri nemendur í framhaldsskólum. Þar hefur orðið mikil sprengja, ekki síst á háskólastigi. Háskólastarf hefur blómstrað sem aldrei fyrr, bæði ríkisháskólarnir sem og sjálfstæðu skólarnir, hvort sem við erum að tala um Bifröst, Háskólann í Reykjavík eða Listaháskólann. Aldrei hafa fleiri sótt í háskólanám á landinu en nú.

Varðandi fiskvinnslunámið er það einmitt eitt meginhlutverk starfshópsins sem ég hef skipað að huga að því hvernig við getum þróað starfsnám áfram í framleiðslutækninni. Fiskvinnslan er auðvitað hluti af framleiðslunni. Við höfum við það vandamál að glíma að ekki er nægilegur áhugi á fiskvinnslunámi. Þá er eitt af hlutverkum starfshópsins að skoða hvernig við löðum fólk að slíku námi. Gerum það aðlaðandi fyrir fólk að fara í það. Ég held að við verðum að veita hinu ágæta fólki í þessum starfshópi svigrúm og tækifæri til að þróa og móta tillögur sínar þannig að það skili einhverjum árangri.