131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Útvarp á öðrum málum en íslensku.

166. mál
[14:37]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Hv. fyrirspyrjandi, Mörður Árnason, hefur beint til mín tveimur spurningum:

„1. Hefur á þessu ári verið veitt leyfi til útvarps á öðrum tungumálum en íslensku skv. 7. gr. útvarpslaga, nr. 53/2000?“

Svarið er já.

„2. Hvaða útvarpsstöðvar hafa nú slíkt leyfi og hverjar eru hinar sérstöku ástæður til slíkra útsendinga, áskildar í fyrrnefndri lagagrein?“

Útvarpsréttarnefnd hefur veitt XA-Radíói, áhugamannafélagi, útvarpsleyfi til hljóðvarps til sjö ára, fyrir XA-Radíó, 12 spora útvarpi. Í bókun útvarpsréttarnefndar kemur fram að með hliðsjón af tilgangi XA-Radíós og nauðsyn þess að gætt sé nafnleyndar þeirra sem miðla af reynslu sinni af glímu við áfengisfíkn í samræmi við grundvallarkenningar AA-samtakanna hafi útvarpsréttarnefnd ákveðið að veita útvarpsleyfi með heimild til að útvarpa á erlendu tungumáli, sbr. 1. mgr. 7. gr. útvarpslaga.

Rétt er að undirstrika að þessi undanþága útvarpsréttarnefndar kemur til vegna starfsaðferða AA-samtakanna til að óvirkir alkar geti miðlað af reynslu sinni. Engu að síður er nauðsynlegt að menn geti gætt nafnleyndar. Nafnleynd er erfið í hinu smáa samfélagi okkar og á þeim grundvelli ákvað útvarpsréttarnefnd að heimila þessa undanþágu til XA-Radíós.

Önnur leyfi til útvarps á erlendu tungumáli hafa ekki verið veitt.

Ég vil líka undirstrika að útvarpsréttarnefnd er algjörlega sjálfstætt stjórnvald sem lýtur ekki boðvaldi ráðherra. Aðkoma ráðherra, eins og við munum síðan við breyttum lögunum um útvarpsréttarnefnd, er sú að ráðherra skipar formann nefndarinnar en síðan tilnefnir Hæstiréttur tvo í nefndina.

Við vitum það líka að nú er til meðferðar, einmitt vegna málsins sem hv. þm. gat um, vegna útsendinga Skjás 1 á enska boltanum, kæra hjá útvarpsréttarnefnd, hjá þessu sjálfstæða stjórnvaldi. Hún mun eflaust hljóta tilhlýðilega meðferð eins og vera ber lögum samkvæmt.

Ég vil hins vegar taka undir það með hv. þm. Merði Árnasyni að við viljum öll veg íslenskrar tungu sem mestan. Eins og komið hefur fram breytist umhverfi fjölmiðlanna hratt en það má hins vegar ekki verða til þess að við Íslendingar gefum afslátt af tungumáli okkar. Við eigum að leita allra leiða til að vanda til máls og reyna að efla íslenska tungu jafnt innan íslenskra fjölmiðla sem utan.