131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Útvarp á öðrum málum en íslensku.

166. mál
[14:44]

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Það er ákaflega fróðlegt og göfugt sjónarmið að Íslendingar eigi að kynna sér erlenda fjölmiðla á erlendum tungumálum. Hér var hins vegar ekki verið að ræða um erlenda fjölmiðla á erlendum tungumálum heldur íslenska fjölmiðla á erlendum tungumálum. Ég ítreka að ég er alveg sammála því að standa þurfi sérstaklega á ef upp koma íslenskir fjölmiðlar sem ekki nota íslenska tungu. Ég veit ekki til hvers þeir eiga að teljast íslenskir og njóta ríkisborgararéttar á Íslandi ef svo er.

Ég vil svo segja um XA-stöðina að ég skil þær sérstöku aðstæður og fellst á að þar standi sérstaklega á þótt ég hyggi að með hugkvæmni megi virða íslenska tungu þar líka, án þess að fara frekar út í þá sálma. Það er vissulega erfitt að útvarpa því sem þar er útvarpað, þ.e. AA-fundum, án þess að menn þekkist ef þar væri um íslenskan AA-fund að ræða.

Ég vil segja um fótboltann að mér þykir málið sérkennilegt vegna þess að forstöðumenn útvarpsstöðvarinnar lýstu því beinlínis yfir að þeir væru að reyna á einhvers konar þanþol í þessum efnum, í raun og veru voru þeir að segja: Ja, við ætlum að sveigja lögin, við ætlum ekki að spyrja að því hvernig þessu eigi að koma fyrir eða hvernig best sé að standa að þessu, hvorki áhorfendur, einhvers konar yfirvöld né almenning. Þeir ætluðu bara að gera þetta og ástæðan var hver? Jú, hún var auðvitað peningaleysi, vegna þess að við viljum sýna þetta og þetta marga leiki og við höfum ekki efni á því að sýna nema tvo eða þrjá með íslenskum þulum.

Þetta er aumingjaástæða. Það stendur ekkert sérstaklega á um þetta. Ef þeir hafa ekki efni á því, ef þessir gæjar geta ekki dröslast til að hafa íslenska þuli með í fótboltanum á stöðvunum á bara að stoppa þá.