131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Stúdentspróf af iðn- og starfsgreinabrautum.

185. mál
[14:50]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Hv. þm. Katrín Júlíusdóttir spyr í fyrsta lagi:

„Hversu margir nemendur luku stúdentsprófi af iðn- og starfsgreinabrautum árin 2001, 2002, 2003, 2004?“

Nemendur allra starfsnámsbrauta geta tekið stúdentspróf með því að ljúka viðbótarnámi sem er skilgreint í aðalnámskrá framhaldsskóla. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni, sem annast upplýsingaöflun um brautskráningar nemenda í framhaldsskólum, luku 56 nemendur stúdentsprófi með viðbótarnámi af iðn- og starfsnámsbrautunum skólaárið 2000–2001, 107 nemendur skólaárið 2001–2002 og 208 nemendur skólaárið 2002–2003. Hagstofan hefur því miður ekki tiltækar tölur fyrir skólaárið 2003–2004.

Nemendur með stúdentspróf í framhaldi af starfsnámsbrautum voru 2,6% allra brautskráðra stúdenta skólaárið 2000–2001 en voru orðnir 8% skólaárið 2002–2003. Eins og sést af áðurnefndum tölum hafa nemendur nýtt sér þessa námsleið í vaxandi mæli, sem betur fer.

Í öðru lagi spyr hv. þm:

„Hversu margir með slík stúdentspróf sem sóttu um inngöngu í háskóla fengu inni í skóla á þessum árum og í hvaða skólum var það?“

Í Háskólanum á Akureyri voru umsækjendur með viðbótarnám 13 árið 2001, 16 árið 2002, 20 árið 2003 og 9 á þessu ári. Umrædd ár sóttu því alls 58 einstaklingar með viðbótarnám til stúdentsprófs um Háskólann á Akureyri. Einum þessara umsækjanda var synjað um skólavist þar sem ekki var unnt að stunda fjarnám frá heimabyggð hans. Aðrir fengu skólavist.

Tækniháskóla Íslands bárust 6 umsóknir árið 2001, 6 árið 2002, 10 árið 2003 og á þessu ári voru umsóknirnar 14. Alls voru umsækjendurnir því 36 sem fengu skólavist í Tækniháskóla Íslands.

Háskóli Íslands veitti öllum umsækjendum með viðbótarnám til stúdentsprófs skólavist sl. vor. Háskóli Íslands upplýsti þó að stúdentspróf af starfsnámsbrautum uppfyllti ekki alltaf reglur um skilyrði um undirbúning til náms í vissum deildum við Háskóla Íslands.

Háskólinn í Reykjavík sérmerkir þessa umsækjendur ekki í umsóknarkerfinu en upplýst var að umsækjendur með viðbótarnám til stúdentsprófs væru fáir eða einn til tveir á ári.

Kennaraháskólinn hafði upplýsingarnar ekki skráðar en upplýst var að ekki væri gerður greinarmunur á umsækjendum eftir skólum eða tegund stúdentsprófs.

Viðskiptaháskólinn á Bifröst skráir ekki tegund stúdentsprófs í umsóknakerfi sínu og ekki er gerður greinarmunur á umsækjendum eftir skólum eða tegund stúdentsprófs.

Í þriðja lagi er spurt:

„Til hvaða aðgerða hyggst menntamálaráðherra grípa til að tryggja nemendum með stúdentspróf af iðn- og starfsgreinabrautum aðgang að háskólanámi?“

Viðbótarnám til stúdentsprófs er nýjung í íslenskum skólamálum. Það á að mynda mikilvæga brú á milli starfsnáms á framhaldsskólastigi og háskólastigsins. Námið er skilgreint í aðalnámskrá framhaldsskóla og við undirbúning þess hafði farið fram víðtæk umræða og samráð milli aðila á framhalds- og háskólastigi. Náminu er ætlað, eins og öðru stúdentsnámi, að vera undirbúningur fyrir nám á háskólastigi en nemendum eru gefnar talsvert frjálsar hendur um samsetningu námsins allt eftir því hverjar inntökukröfur í fyrirhuguðu námi eru.

Við inntöku í háskóla síðasta sumar reyndust umsóknir fleiri en háskólarnir gátu annað. Í einhverjum tilvika gripu skólar til þess ráðs að flokka umsóknir nemenda með viðbótarnám til stúdentsprófs af starfsnámsbrautum með þeim umsækjendum sem sóttu um skólavist með undanþágum frá stúdentsprófi. Það var skilningur ráðuneytisins frá upphafi að viðbótarnám til stúdentsprófs ætti að vera fullgild leið til undirbúnings fyrir háskólanám að því gefnu að samsetning þess miðaðist við skilgreind markmið í fyrirhugðu háskólanámi.

Í samræmi við þetta tel ég óeðlilegt að nemendum með þessa tegund stúdentsprófs sé synjað um skólavist óháð inntaki námsins.

Í fjórða lagi er spurt:

„Telur ráðherra koma til greina að öll stúdentspróf verði talin fullgild, þ.e. veiti aðgang að háskóla? Ef ekki, hvar vill ráðherra setja mörkin?“

Nám til stúdentsprófs er í eðli sínu undirbúningur undir nám á háskólastigi og þannig er um það fjallað í lögum. Í þeim skilningi eru öll stúdentspróf sem tekin eru á Íslandi fullgild. Fram hjá því er hins vegar litið að mismunandi inntökukröfur háskóla og háskóladeilda gera það að verkum að ekki duga öll stúdentspróf jafnvel til inntöku í hvaða deild sem er. Samkvæmt lögum um framhaldsskóla ber að skilgreina námsbrautir með lokamarkmið þeirra í huga. Kjarni allra bóknámsbrauta til stúdentsprófs er hinn sami en kjörsvið brautanna og frjálst val nemenda er ætlað til að búa nemendur markvissar undir nám á tilteknum sviðum á háskólastigi.

Í aðalnámskrá segir að náttúrufræðibraut búi nemendur undir framhaldsnám í háskóla í náttúruvísindum, stærðfræði og öðrum greinum sem byggjast á góðri undirstöðu í náttúruvísindum. Málabrautin býr nemendur undir háskólanám á sviði málvísinda og þar sem gerð er krafa um góða tungumálakunnáttu. Stúdentspróf á málabraut býr nemendur því undir háskólanám með öðrum hætti en stúdentspróf af náttúrufræðibraut, svo dæmi sé tekið. Á báðum þessum brautum ljúka nemendur fullgildum stúdentsprófum þó að undirbúningur þeirra til háskólanáms á ólíkum sviðum sé talsvert mismunandi.

Sama á við um viðbótarnám til stúdentsprófs á starfsnámsbrautum sem var til umræðu áðan.