131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Stúdentspróf af iðn- og starfsgreinabrautum.

185. mál
[14:56]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Skapast hefur hefð fyrir því á undanförnum árum að Háskóli Íslands nýti sér undanþáguheimild sína til að taka inn nemendur með stúdentspróf af starfsnámsbrautum svo og þá sem hafa ekki það sem telst til hefðbundins bóknáms og er það gott. Það ætti að sjálfsögðu að jafngilda öll stúdentspróf til að allir fái inngöngu í háskóla burt séð frá því hvort um er að ræða starfsnáms- eða bóknámsstúdentspróf. Það hefðarrof sem varð sl. haust þegar Háskóli Íslands tók ekki inn stúdentana er ákveðin aðför að starfsnámsstúdentsprófum og starfsnámsbrautum.

Það urðu þeim nemendum að sjálfsögðu mikil vonbrigði og sjálfsagt mörgum mikið áfall að Háskóli Íslands skyldi á því hausti vegna fjársveltis stjórnvalda og þeirra hörðu kosta sem hann sætir af hálfu stjórnvalda ekki beita undanþáguheimild sinni til þess að spara fé. Það bitnaði harkalega á þessum nemendum og er það miður. Því skora ég á ráðherra að beita sér fyrir því af öllu afli að þetta komi ekki fyrir aftur, Háskóli Íslands verði skorinn niður úr snörunni og þessum nemendum veittur aðgangur að skólanum.