131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Stúdentspróf af iðn- og starfsgreinabrautum.

185. mál
[14:58]

Fyrirspyrjandi (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir ágæt svör, þar kom ýmislegt jákvætt fram.

En það versta í málinu, sem ég vil koma inn á núna, er að fjársvelti Háskóla Íslands birtist með þeim hætti að við sjáum slíka annmarka á kerfinu að þeir sem eru á starfsgreinabrautum eru háðir undanþáguákvæðum varðandi inngöngu í Háskóla Íslands. Það tel ég vera alvarlega brotalöm á kerfi okkar og eitthvað sem við verðum að skoða hið allra fyrsta.

Ég tel að í sumar hafi verið brotið á þessum nemendum og sú aukning á nemendum sem stunda nám á starfsgreinabrautum, eins og fram kom í máli hæstv. menntamálaráðherra, tel ég afar jákvæða. En ég tel að þar gæti orðið afturför vegna þess að námið verður ekki fýsilegt fyrir nemendur framtíðarinnar ef þeir sjá ekki fyrir sér að það sé öruggt að þeir geti gengið í nám á háskólastigi vegna þess að það sé háð undanþágum.

Ég tel að það sé alvarleg staða í menntakerfi okkar og verulegur löstur að nemendur á starfsnámsbrautum framhaldsskólanna séu að námi loknu í blindgötu hvað frekara nám varðar. Þetta tel ég að hæstv. menntamálaráðherra og menntamálaráðuneytinu beri að leysa, að einfalda leiðirnar í framhaldsnám fyrir þessa nemendur.

Viðurkenndar námsleiðir sem nemendur velja sér 15–16 ára gamlir mega ekki verða þeim hindranir að námi loknu því þá eru menntamálayfirvöld að mínu mati ekki að standa sig. Það á að gera starfnámi hátt undir höfði en ekki leiða það inn á blindgötur. Námið er statt í blindgötu sem verður að losa það úr hið fyrsta svo starfsnámið verði raunverulegur valkostur fyrir nemendur framtíðarinnar. Það verður að finna varanlega lausn á þessu, taka þetta úr klöfum undanþágna og eyða þannig óvissunni fyrir nemendur framtíðarinnar.