131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Tónlistarnám.

187. mál
[15:09]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Gott er að þetta vandamál er úr vegi. Ég vil nota þetta tækifæri til að lýsa því fyrir þingheimi að fyrir nokkru barst okkur í menntamálanefnd bréf frá samtökum skólastjóra í tónlistarskólum þar sem við vorum boðuð á málþing sem halda átti á föstudaginn um frumvarp að nýjum lögum sem í ráði væri að flytja hér.

Þetta merkti maður við í dagbókina sína og leit með tilhlökkun til fundarins. Í byrjun vikunnar kom svo annað bréf frá formanni samtakanna þar sem tilkynnt var að málþingið félli niður vegna þess að embættismenn menntamálaráðherra sem væru að undirbúa lögin hefðu sagt að að skipun menntamálaráðherra gætu þeir því miður ekki komið á fundinn og sagt neitt frá lögunum.

Þetta eru ákaflega sérkennileg vinnubrögð og því miður eru þau farin að einkenna starf hæstv. menntamálaráðherra, að gera allt í leynum, að neita öllu samráði og neita öllum upplýsingum um lagasmíð sem er í gangi. Ég minni á Ríkisútvarpið sem við töluðum um rétt áðan. Ég tel að þetta beri ekki með sér árangur í störfum heldur (Forseti hringir.) sé þetta þvert á móti mikill galli á vinnubrögðum hæstv. menntamálaráðherra og ráðuneytis hennar.