131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Aðsókn að Háskóla Íslands.

219. mál
[15:25]

Fyrirspyrjandi (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hef oft verið sáttari við svör hæstv. menntamálaráðherra en akkúrat núna. Hún talar þannig að Háskóla Íslands beri að haga rekstri samkvæmt fjárlögum eins og um hverja aðra stofnun sé að ræða. Háskóli Íslands er dínamísk, akademísk menntastofnun og mér þykja þetta býsna kaldar kveðjur til þjóðskólans Háskóla Íslands. Við skulum halda því til haga að Háskóli Íslands er sameign þjóðarinnar og við gerum mjög miklar kröfur til hans, kröfur m.a. um að hann bjóði nám á breiðum vísindalegum grunni. Hann er ekki sérhæfður skóli með þröngt námsframboð. Að því leytinu til hefur hann gríðarlega sérstöðu í háskólaflórunni, hinni jákvæðu og góðu háskólaflóru sem hér er á landi, en þessar skyldur hvíla aukalega á Háskóla Íslands. Þaðan koma fræðimenn á sviðum eins og t.d. í íslensku, raungreinum, tungumálum og stærðfræði svo einungis örfá svið séu nefnd.

Ég tel að hæstv. menntamálaráðherra hafi verið að ýja að því áðan að hún sé vandamál háskólans, þessi jákvæða þróun sem hin aukna aðsókn er að háskólanum. Ef stjórnvöld ætla að gera hana að vandamáli háskólans tel ég að hæstv. menntamálaráðherra verði að svara því hvað hún hafi átt við. Átti hún við að Háskóli Íslands ætti að taka upp markvissar fjöldatakmarkanir til að halda sig við þessa vanáætlun sem í raun er í fjárlögum? Með hvaða hætti á þá að gera það? Ég vil heyra það frá hæstv. menntamálaráðherra ef hún er að leggja það til sem mér heyrðist hún vera að gera.

Vill hún kannski að háskólinn hreinlega leggi niður nám sem ekki telst arðbært eins og sakir standa? Tökum t.d. nám í íslensku, er það arðbært að mati hæstv. menntamálaráðherra eða á að leggja það fag niður, svo dæmi sé tekið?