131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Aðsókn að Háskóla Íslands.

219. mál
[15:27]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Mikilvægi Háskóla Íslands verður seint undirstrikað. Háskóli Íslands er grundvallarmenntastofnun í íslensku samfélagi og ber ríkar skyldur til samfélagsins og auðvitað eigum við að hlúa að þessum góða háskóla eins og kostur er. Ég skildi ekki hv. fyrirspyrjanda öðruvísi en svo að hún væri að mælast til þess að Háskóli Íslands, sem er ríkisstofnun eins og margar aðrar, eigi ekki að fara að fjárlögum. Mér finnst mjög slæmt þegar skilaboðin eru þau. Hversu mikilvægar sem ríkisstofnanir eru, hvort sem það er Landspítali – háskólasjúkrahús, háskólarnir eða aðrar ríkisstofnanir, finnst mér vont (Gripið fram í.) þegar verið er að senda þau skilaboð úr þessum þingsal að menn hafi heimild til að fara ekki að fjárlögum. Fjárlög eru samþykkt í þingheimi með lýðræðislegum hætti og á lýðræðislega kjörnu þingi.

Ég vil líka benda á að erlendis — og ég hef kynnt mér það — er hvergi unnið í háskólum þannig að háskólar, hvort sem þeir eru ríkis- eða einkaháskólar, hafi í rauninni algjörlega opinn ramma. Allar háskólastofnanir á erlendri grundu vinna eftir ákveðnum ramma sem þeim ber að virða, hvort sem þær eru opinberar eða einkastofnanir.

Ég vil einnig undirstrika það, frú forseti, að kostir og möguleikar íslenskra ungmenna og námsmanna til að fara í háskólanám hafa aldrei verið meiri. Það er ekki síst því að þakka að Háskóli Íslands hefur staðið mjög stöðugur, staðið sig afar vel í samkeppni og eflst við samkeppnina sem þingmenn í stjórnarandstöðunni hafa ekki barist fyrir að hefði ellegar komist á. Þingmenn í stjórnarandstöðunni hafa ekki barist fyrir samkeppni (Gripið fram í.) á háskólastigi. Það er á hreinu, frú forseti. (Gripið fram í: Einn og einn.)