131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Vatnajökulsþjóðgarður.

121. mál
[15:33]

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Vinna við undirbúning að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs hefur staðið allt frá því að Alþingi samþykkti þingsályktun um stofnun hans 9. mars 1999. Þar var umhverfisráðherra falið að láta kanna í samvinnu við skipulagsyfirvöld og hugsanlega rétthafa möguleika á að stofna þjóðgarðinn. Starfshópur sem umhverfisráðherra skipaði í kjölfar þingsályktunarinnar lagði til að fyrsta skref í stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs yrði stofnun þjóðgarðs sem tæki til jökulhettunnar. Með hliðsjón af niðurstöðu starfshópsins ákvað ríkisstjórnin 26. september árið 2000 að vinna að undirbúningi þjóðgarðsins sem tæki til jökulhettunnar sem fyrsta skref í þjóðgarði er tæki til Vatnajökuls og helstu áhrifasvæða hans. Fjölmörg svæði við jökuljaðarinn eru friðlýst eða á náttúruminjaskrá eins og kunnugt er og hljóta þau svæði að koma til álita frekar en önnur svæði þegar hugað verður að stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs út fyrir jökulhettuna þótt slíkt sé auðvitað ekki einhlítt þar sem viðhorf til náttúruverndar einstakra svæða hafa breyst og eru sífellt að breytast.

Má benda á í því sambandi að við nýlega stækkun Skaftafellsþjóðgarðs var eitt svæði utan jökulhettunnar tekið með í þjóðgarðinn en það er einmitt friðlýsta svæðið í Lakagígum.

Hvað varðar skoðun á því hvaða jaðarsvæði Vatnajökuls komi til greina sem hluti þjóðgarðsins í framtíðinni liggja fyrir ítarlegar tillögur um svæðið norðan Vatnajökuls sem unnar voru af nefnd sem í sátu þingmenn stjórnar og stjórnarandstöðu. Eru þær tillögur nú til umfjöllunar í ríkisstjórn. Ekki hefur farið fram sambærileg athugun á því hvaða svæði gætu hentað og væru vel til þess fallin að tengjast Vatnajökulsþjóðgarði sunnan og vestan jökulsins eða á því svæði sem Eldgjá og Langisjór eru á. Ég tel þó eðlilegt að slík athugun fari fram sem fyrst.

Hvað varðar spurningu hv. þingmanns um hvort til greina komi að Eldgjá og Langisjór verði utan þjóðgarðsins er því til að svara að auðvitað kemur slíkt til greina. Ég tel þó að frekari undirbúningsvinna sé nauðsynleg áður en hægt verður að taka ákvörðun um slíkt eins og gert var varðandi Lakagíga. Þess skal þó getið að hvorki Eldgjá né Langisjór hafa verið friðlýst eins og Lakagígar sem gerði inntöku þess svæðis í Skaftafellsþjóðgarðinn tiltölulega einfalda við stækkun hans. Fyrir liggur mat á verndargildi Eldgjár og hefur Eldgjá verið sett á náttúruminjaskrá en mat á verndargildi Langasjávar liggur ekki fyrir.