131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Vatnajökulsþjóðgarður.

121. mál
[15:40]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Þegar ég var stödd á umræddu svæði var mér sagt að Langisjór væri í einkaeign og að vatnið væri leigt öðrum sem nytjaði það og það var einmitt verið að leggja net í vatnið þá. Ég hef velt því fyrir mér síðan hvort það geti skipt máli hvort þetta svæði sé einkaeign eða þjóðlenda, a.m.k. vaknar spurningin um hver á og við hvern á að semja ef til þess kemur að farin verði sú leið sem hv. þm. Kjartan Ólafsson nefndi og sem m.a. er forsendan fyrir spurningu minni.

Skaftá rann áður í Langasjó og þess vegna er oft haft á orði að í lagi sé að veita í hana jökulvatni á ný. Staðan er bara sú að þetta er allt annað landslag í dag þó að áður hafi runnið í hana jökulvatn. Nú er þetta heiðblátt, fagurblátt, undrafagurt vatn, svo sérstakt þarna inn á milli hæðanna að það er hreinlega ógleymanlegt að standa uppi á Breiðbak með alla víðáttuna í austur, vestur, suður og norður í kringum sig og þetta mikilfenglega vatn með náttúruumhverfi sínu við rætur fjallsins. Ég er sannfærð um að enginn sem það upplifir, stendur þarna og horfir út yfir landið sitt getur hugsað sér að láta kannski skammtímahagsmuni virkjunaráforma ráða því hvort þarna eigi að verja eða vernda. Ég er þeirrar skoðunar að fyrst eigum við að ákveða hvort á að vernda, verja og geyma fyrir komandi kynslóðir einhverja sérstaka náttúruperlu og síðan verði ákvörðun tekin um hvort eigi að nýta hana ef ekki á að geyma.

Ég fagna svörum hæstv. umhverfisráðherra sem ætlar að setja í gang skoðun á því hvernig haldið verði á málum þarna og að hún lokar alls ekki á að þetta svæði verði hluti af Vatnajökulsþjóðgarði. Það gleður mig.