131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Þjónustugjöld á náttúruverndarsvæðum.

221. mál
[15:46]

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Samkvæmt náttúruverndarlögum getur Umhverfisstofnun eða sá aðili sem falinn hefur verið rekstur náttúruverndarsvæðis tekið gjald fyrir þjónustu eða aðgang. Tekjunum skal varið til eftirlits, lagfæringar, uppbyggingar svæðisins eða aðkomu að því.

Þessi heimild laganna hefur ekki verið nýtt fyrir utan að innheimt eru gjöld fyrir gistingu á tjaldsvæðum í þjóðgörðum en aðgangseyrir er ekki innheimtur.

Umhverfisráðherra skipaði starfshóp árið 2000 sem gera átti tillögur um tekjuöflun á náttúruperlum og gera tillögu að stefnumótun til lengri tíma um aðgangs- og þjónustugjöld á vernduðum svæðum eða á hvern hátt best megi tryggja nauðsynlegt fjármagn til að byggja upp fjölsótt náttúruverndarsvæði til að mæta vaxandi umferð ferðafólks. Var starfshópurinn skipaður sérfræðingum frá umhverfisráðuneytinu, Náttúruvernd ríkisins, Ferðamálaráði, Samtökum ferðaþjónustunnar og fjármálaráðuneytinu.

Starfshópurinn var ekki sammála um upptöku á innheimtu aðgangseyris að ferðamannastöðum almennt og skýrðist það á þeim sjónarmiðum að slík gjaldtaka felur í sér mismunun milli staða þar sem erfitt eða nánast útilokað er að innheimta aðgangseyri nema á mjög takmörkuðum fjölda þeirra. Einnig að slík gjaldtaka væri neikvæð með tilliti til þess að einungis þeir ferðamenn sem sækja takmarkaðan fjölda fjölsóttra ferðamannastaða væru að greiða fyrir aðgang, aðrir ekki. Jafnframt að kostnaður við innheimtukerfið er hlutfallslega hár miðað við þær tekjur sem nást inn.

Einnig þarf að hafa í huga að þeir fjármunir sem nást inn með innheimtu aðgangseyris mega og eiga að fara til uppbyggingar á þeim stöðum þar sem þeir innheimtast og ekki væri hægt að nýta þá til uppbyggingar annarra náttúruperla. Slík innheimta gæti því verið slæm lausn.

Landfræðilega koma fáir staðir til greina þar sem hægt væri að halda utan um aðstreymi ferðamanna á auðveldan hátt, en það væri hægt á sumum þeirra svo sem í þjóðgarðinum í Skaftafelli, Ásbyrgi, þjóðgarðinum í Jökulsárgljúfrum, Dimmuborgum í Mývatnssveit, Gullfossi og Geysi. Starfshópurinn var hins vegar sammála um að uppbygging ferðamannastaða skapar forsendur fyrir tekjuöflun rekstraraðila á stöðunum sem nýta má til uppbyggingar þar.

Því var á árinu 2000 veitt 25 millj. kr. fjárveiting til Umhverfisstofnunar, þar af 19 millj. kr. og tímabundin fjárveiting til fimm ára til uppbyggingar í þjóðgörðum á friðlýstum svæðum. Á sama tíma fékk Ferðamálaráð fjárveitingu til sama verkefnis og þessar stofnanir unnu í samvinnu við Vegagerðina að uppbyggingu og framkvæmdum á fjölsóttum ferðamannastöðum.

Alls hafa farið til þessa verkefnis um 500 millj. kr. á sl. fimm árum og hafa málin þokast nokkuð áfram en ótal verkefni eru enn til staðar á mörgum þessara staða og í dag eru alls um 90 friðlýst svæði í umsjá Umhverfisstofnunar. Ljóst er hins vegar að samhliða fjölgun ferðmanna um þessi svæði, jafnt innlendra sem erlendra, þarf aukið fjármagn til áframhaldandi viðhalds og uppbyggingar á þeim fjölmörgu viðkomustöðum sem ferðamenn heimsækja. Ein leiðin til að afla þessa fjármagns væri að taka upp þjónustugjöld og innheimta aðgangseyri á ferðamannastöðunum.

Þar sem aðeins er hægt að koma við gjaldtöku á takmörkuðum fjölda staða á auðveldan og viðunandi hátt og einungis þeir ferðamenn sem færu um þá greiddu fyrir uppbygginguna og kostnaður við innheimtukerfið er hlutfallslega hár er ég ekki tilbúin á þessari stundu að taka afstöðu til þess hvort ég muni beita mér fyrir því að gjaldtöku verði komið á. Ég vil gjarnan skoða málið í stærra samhengi áður en ég tek slíka ákvörðun.

Hins vegar finnast mér hugmyndir Maríu Reynisdóttur, sem hv. fyrirspyrjandi, Ásta Möller, nefndi í máli sínu, vera allrar athygli verðar, sérstaklega þar sem samkvæmt rannsókninni eru yfir 90% ferðamanna reiðubúin til að greiða fyrir aðgang. Það er auðvitað mjög mikilvægt innlegg í umræðu af þessu tagi. En sé verðlagningunni hagað þannig að hámarkstekjur innheimtist, sem gætu orðið verulegar, gæti líka dregið úr aðsókn. Þetta þarf allt að hafa í huga þegar þessi mál eru skoðuð.