131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Þjónustugjöld á náttúruverndarsvæðum.

221. mál
[15:52]

Kjartan Ólafsson (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir innlegg sitt og ég tel jákvætt að þetta komi til umræðu á hinu háa Alþingi.

Ég vil samt sem áður lýsa þeirri skoðun minni, sem fram kom í svari hæstv. umhverfisráðherra og starfshópnum sem hún nefndi áðan, að það ber að fara varlega hvað þetta mál varðar. Til að mynda finnst mér útilokað að tilfærsla milli svæða, ef um gjaldtöku væri að ræða, ætti sér stað. Það eru aðilar sem hafa byggt upp tiltekna staði, auglýst þá og lagt í mikinn kostnað og ég tel mjög varhugavert ef færa ætti til fjármuni á milli staða og tel að það ætti alls ekki að gera.