131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Þjónustugjöld á náttúruverndarsvæðum.

221. mál
[15:54]

Fyrirspyrjandi (Ásta Möller) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir svörin og ágætum þingmönnum fyrir þátttöku í umræðunni.

Ég þekki mjög vel þá skýrslu sem hæstv. umhverfisráðherra gerði að umræðuefni í ræðu sinni. Nefndin sem reit þá skýrslu skilaði störfum árið 2000, að mig minnir. Nú er bráðum 2005 og ég er þeirrar skoðunar að ýmislegt hafi breyst í umræðunni í millitíðinni.

Ég lagði fram á 128. löggjafarþingi þingsályktunartillögu um þetta efni sem hljóðaði svo:

„Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra að undirbúa og ákveða fyrirkomulag og innheimtu sérstaks þjónustugjalds á fjölsóttum náttúruverndarsvæðum sem stæði undir uppbyggingu og þjónustu á slíkum svæðum.“

Tillagan var ekki útrædd í þinginu en fór til nefndar og fékk umsagnir. Hún fékk mjög jákvæða umsögn ýmissa aðila þó vissulega væru skiptar skoðanir um efni hennar. Þó var sammerkt með þeim sem áttuðu sig á því að tillagan beindist að því að setja þjónustugjald sem stendur undir tiltekinni þjónustu, en ekki aðgöngugjald, að þeir voru almennt jákvæðir gagnvart málinu. Þannig lýstu Vegagerðin, Náttúruvernd ríkisins, sem er reyndar komin undir Umhverfisstofnun, og Samtök sunnlenskra sveitarfélaga sig hlynnt slíkum hugmyndum og sama átti við um Ferðamálaráð og Samtök ferðaþjónustunnar. Samtök ferðaþjónustunnar hafa yfirleitt verið tekin sem dæmi um samtök sem hafa lýst sig andvíg, en það er ekki rétt því þau lögðu sérstaka áherslu á að það væri jákvætt ef gjaldið stæði undir þjónustu en væri ekki hreinn aðgangseyrir.

Virðulegi forseti. Skoðun mín er að hugmyndir sem þessar hafi nú aukinn hljómgrunn í samfélaginu. Þessi leið er viðurkennd erlendis, það er t.d. regla frekar en undantekning að erlendis sé greitt þjónustugjald fyrir aðgang að þjóðgörðum. Ef ég leyfi mér að alhæfa út frá þeirri rannsókn sem ég ræddi um í fyrri ræðu minni má ætla að um 90% þeirra á fjórða hundrað þúsund erlendra ferðamanna séu tilbúin að greiða slíkt gjald sé það hæfilegt og standi undir þjónustu á viðkomandi stað. Því hvet ég hæstv. umhverfisráðherra til að skoða málið frekar.