131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Gjafsókn.

167. mál
[18:30]

Fyrirspyrjandi (Jónína Bjartmarz) (F):

Herra forseti. Fyrirspurn mín til hæstv. dómsmálaráðherra lýtur að kostnaði ríkissjóðs af gjafsókn og tilefni fyrirspurnarinnar er m.a. frumvarp um breytingar á þeim reglum laga um meðferð einkamála sem um gjafsóknina fjalla og hæstv. ráðherra hefur nýlega mælt fyrir lítillega óbreyttu frumvarpi frá fyrra þingi.

Reglurnar um gjafsókn eru í 126. gr. og þar segir að gjafsókn verði aðeins veitt ef nægilegt tilefni er til málshöfðunar eða málsvarnar og annaðhvort sé, skv. a-lið efnahag umsækjanda „þannig háttað að kostnaður af gæslu hagsmuna hans í máli yrðu honum sannanlega ofviða“, en þetta er jafnframt meginreglan og grundvallarskilyrði ákvæðisins, eða skv. b-lið sem er tvískiptur „að úrlausn máls hafi verulega almenna þýðingu eða varði verulega miklu fyrir einkahagi umsækjanda, þ.e. atvinnu, félagslega stöðu eða aðra einkahagi“.

En samkvæmt athugasemdum við frumvarp hæstv. dómsmálaráðherra er það ákvæði b-liðarins sem þykir afar víðtækt og í athugasemdunum segir að það þyki ekki forsvaranlegt að verið sé að kosta málshöfðun eða málsvörn einstaklinga af almannafé á grundvelli svo almenns ákvæðis. Þess í stað er lagt til sem skilyrði fyrir gjafsókn að nægilegt tilefni sé til málshöfðunar og að eðlilegt megi teljast að málsókn sé kostuð af almannafé.

Umsögn fjárlagaskrifstofu um frumvarpið gerir ráð fyrir einhverri fækkun á veitingu gjafsóknar og að útgjöld vegna gjafsóknarleyfa aukist minna en verið hefur undanfarin ár eða lækki jafnvel. En í umsögninni er ekki slegið fram neinni áætlun um krónutölu sparnaðar. Það gerði hins vegar fulltrúi dómsmálaráðuneytisins á fundi allsherjarnefndar sem sagði að sparnaður með lögfestingu frumvarpsins gæti numið 10–15 millj. kr. árlega.

Það sem ég hef nú rakið vekur ýmsar spurningar, herra forseti, sem varða forsendur breytinga á lagareglum um gjafsókn og sem ég hef sett fram í fyrirspurn minni til hæstv. dómsmálaráðherra.

Ég spyr hæstv. ráðherra um þróun kostnaðar ríkissjóðs við gjafsókn á árunum 1998–2003, um skiptingu kostnaðarins vegna gjafsóknar skv. a-lið og b-lið 126. gr., svo og skv. b-liðnum um skiptingu kostnaðar eftir því hvort byggt er á því að úrlausn máls hafi verulega almenna þýðingu eða varði einkahagi umsækjanda.

Hinn hluti fyrirspurnar minnar, herra forseti, lýtur að þróun kostnaðar vegna gjafsóknar og hvernig hún sé miðað við fjölda mála fyrir dómstólum á árunum 1998–2003, en af svari dómsmálaráðherra á 130. þingi við fyrirspurn í 170. máli kemur fram að einkamálum fjölgaði um 139% á árunum 1999–2002 að meðaltali við héraðsdómstóla landsins og þar af munnlega fluttum einkamálum um heil 40%. En að því lýtur, herra forseti, sá hluti fyrirspurnarinnar hver sé þróun kostnaðar vegna gjafsóknar miðað við fjölgun mála fyrir dómstólum.