131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Lögfræðiaðstoð við þolendur heimilisofbeldis.

255. mál
[18:45]

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Herra forseti. Samningur sá sem hv. fyrirspyrjandi vísar til í fyrirspurn sinni er samkomulag frá 2. maí 2003 milli þáverandi dómsmálaráðherra og Landspítala – háskólasjúkrahúss og felur það í sér að spítalinn komi upp í tilraunaskyni sérhæfðri móttöku fyrir þolendur heimilisofbeldis þar sem þeir sem fyrir ofbeldi verða geti leitað nauðsynlegrar aðstoðar og stuðnings sér að kostnaðarlausu. Tilraunin er til tveggja ára frá 1. maí 2003 til 1. maí 2005 og verður þá tekin til endurmats og ákvarðanir teknar um framhald tilraunarinnar eða verkefnisins.

Dómsmálaráðuneytið skuldbindur sig í samkomulaginu til að leggja fram 2 millj. kr. til stuðnings við verkefnið. Í samkomulaginu kemur enn fremur fram að á móttökunni sem skal vera á slysa- og bráðadeild fái fórnarlömb heimilisofbeldis aðhlynningu og þeim m.a. boðin sérhæfð lögfræðiaðstoð. Umsjón með verkefninu er í höndum sviðsstjóra hjúkrunar á slysa- og bráðasviði.

Samkvæmt upplýsingum frá slysa- og bráðasviði Landspítala – háskólasjúkrahúss var fyrir ári haldið undirbúningsnámskeið fyrir starfsfólk slysa- og bráðasviðs um eðli og umfang heimilisofbeldismála, skráningu málanna innan spítalans, hvernig stuðningi væri háttað við þolendur hjá ýmsum aðilum eins og Félagsþjónustunni og Kvennaathvarfinu, hver lagalegur stuðningur Kvennaráðgjafar væri, frætt um nálgunarbann og fleira sem varðar úrræði lögreglunnar.

Fyrir utan læknisaðstoð veitir starfsfólk spítalans fræðslu um hvert hægt er að leita utan spítalans og einnig hefur málum verið vísað áfram til miðstöðvar áfallahjálpar til að veita þolendum andlegan stuðning, fræðslu og einnig til frekari greiningar á vanda þolenda og barna þeirra. Þangað er vísað um 15–20 málum á ári en miðstöð áfallahjálpar er hluti af þjónustu slysa- og bráðasviðs spítalans.

Samkvæmt upplýsingum frá slysa- og bráðasviði hefur ekki verið hafin vinna við að skilgreina þjónustu sérstakra réttargæslumanna fyrir þolendur heimilisofbeldis og hvaða lögmenn eigi að sinna henni. Hugmyndir stjórnenda á slysa- og bráðasviði er að hægt sé að tryggja þessa þjónustu hjá réttargæslumönnum sem hafa ákveðna sérþekkingu og áhuga á að sinna þessum málum.

Hvað varðar fjölda mála hafa um 140 tilgreind heimilisofbeldismál komið upp á ári hverju til slysa- og bráðadeildar. Einnig eru mörg mál á ári greind vegna þess að foreldrar leita sér aðstoðar vegna annars vanda á velferð barna þeirra. Mörg mál á ári eru tilkynnt til barnaverndaryfirvalda þar sem óskað er eftir því að tekið sé á vanda fjölskyldunnar.

Einungis hefur verið óskað eftir lögfræðiaðstoð samkvæmt áðurnefndu samkomulagi í tveimur málum og voru það bæði mál sem kærð voru til lögreglu. Var veitt til þessara tveggja mála rúmlega 400 þús. kr.

Þá var spurt: „Eru áform uppi um að efla sérhæfða móttöku og lögfræðiaðstoð við þolendur heimilisofbeldis?“

Um það er að segja að áformin um að efla sérhæfða móttöku og lögfræðiaðstoð við þolendur heimilisofbeldis eru í fyrsta lagi þetta tilraunaverkefni sem ekki er lokið og það verður síðan endurmetið, eins og fram hefur komið, í ljósi þeirrar reynslu sem fengist hefur. Þá hefur dómsmálaráðuneytið komið að þessu fyrst og fremst til að veita þolendum aðgang að lögfræðiþjónustu. Ég hef áður sagt að til stendur að kanna sérstaklega hvort setja beri verklagsreglur um kvaðningu réttargæslumanns þegar fórnarlömb heimilisofbeldis leita til bráðamóttöku sjúkrahúsa.

Herra forseti. Eins og heyrist á svari mínu er fyrst og fremst um að ræða í þessu tilviki hvaða starfsreglur eru hafðar uppi á bráðamóttökunni eða slysa- og bráðasviðinu á Landspítala – háskólasjúkrahúsi sem heyrir að vísu ekki beint undir dómsmálaráðuneytið en ég hef átt viðræður við þær konur sem standa að þessu á slysa- og bráðasviði spítalans. Uppi eru áform, eins og ég sagði, um að huga að verklagsreglum um þessi mál þannig að unnt sé að vita nákvæmlega hvernig grípa eigi á hverju máli sem upp kemur og það sé hluti af því sem við blasir hjá þeim sem á sviðinu starfa þegar slík mál ber þar inn fyrir dyr svo unnt sé að taka á þeim skipulega og samkvæmt ákveðnum verklagsreglum sem kunna einnig að lúta að þessari lögfræðilegu aðstoð.