131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Lögfræðiaðstoð við þolendur heimilisofbeldis.

255. mál
[18:50]

Fyrirspyrjandi (Jónína Bjartmarz) (F):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir svar hans við þessari fyrirspurn. Það sem ég var mest forvitin að heyra voru hugsanleg áform ráðherrans og ráðuneytisins um að efla sérhæfða móttöku og lögfræðiaðstoðina við þolendur. Eins og kom fram í svarinu, og lá svo sem fyrir í frétt í dagblaði eftir að ég skilaði inn fyrirspurninni, hafa einungis tvær konur notið þessarar aðstoðar. Fjárveitingin var um 2 millj. til tveggja ára og verkefninu lýkur í maí 2005, sem segir mér að þarna er nokkur inneign. Þá hlýtur maður að velta vöngum yfir því af hverju þetta fé hefur ekki verið nýtt betur en eins og kom fram í ræðu minni áðan hafa starfsmenn neyðarmóttöku vegna nauðgunar, sem að hluta til eru þeir sem hafa tekið þetta að sér, m.a. bent á að það kosti að undirbúa þetta, það kosti bæði tíma og fjármuni og þeir hafi ekki verið til staðar. Þá velti ég því fyrir mér hvort hægt væri að nýta eitthvað af þeim peningum sem þarna eru ónýttir í frekara skipulag og undirbúning og þjálfun starfsmanna.

Eins og kom líka fram hjá mér áðan, herra forseti, beinist þessi aðstoð fyrst og fremst að því að veita lögfræðiaðstoð við þolendur. En upphaflega, eftir að skýrslan var unnin fyrir ráðuneytið af nefnd sem skipuð var 1997, var gert ráð fyrir mun fjölbreyttari aðstoð, bæði sálfræðiaðstoð, félagsráðgjöf og öðru sem ég held að sé ekki síður þörf á fyrir þolendur heimilisofbeldis. Hitt er svo annað mál að það virðist vera sá skilningur á slysadeildinni að þessu fé skuli fyrst og fremst varið til aðstoðar konum sem ætla að kæra en ekki konum sem ætla að bregðast við á einhvern annan hátt og vilja fyrst og fremst fá ráðgjöf. (Forseti hringir.) Það er svo í rauninni efni í aðra umræðu, herra forseti.