131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Styrking efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra.

281. mál
[18:59]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherra svörin og ég get tekið undir margt sem kom fram í máli hans. Auðvitað tek ég undir að það sé rétt að efla og styrkja efnahagsbrotadeildina og það er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra að hún er að fá æ stærri verkefni og það er líka rétt að kröfur til hennar muni aukast og það þarf að gera henni kleift að ráða til sín fleira fólk.

En hvaða áætlanir hefur ráðherrann á prjónunum til að auka og efla efnahagsbrotadeildina til þess að hún geti sinnt verkefnum sínum? Deildin er þannig stödd núna að hún hefur ekki nægan mannafla til að taka upp mál að eigin frumkvæði. Ég spyr ráðherrann um skoðun hans á því. Telur hann eðlilegt að búa þannig að stofnuninni að hún hafi ekki mannafla til að taka upp mál að eigin frumkvæði? Ég vil líka spyrja ráðherrann hvort hann hafi kannað það hjá efnahagsbrotadeildinni hvort hægt væri að flýta því að fá niðurstöðu í þetta umrædda mál, rannsókn þeirra varðandi þátt einstaklinga í verðsamráði olíufélaganna, t.d. með auknu tímabundnu fjármagni og þá er ég að tala um til viðbótar þeim 15 millj. kr. sem ráðherra nefndi, enda taldi ráðherra það upp að þær 15 milljónir væru líka ætlaðar til þess að hraða rannsóknum á öðrum mikilvægum málum eins og fíkniefnamálum og fleiri málum sem eru til meðferðar hjá efnahagsbrotadeildinni.

Hefur ráðherrann gert einhverjar áætlanir um það hvernig hann vill styrkja deildina og hvernig hægt er að búa betur að henni og hefur hæstv. ráðherra kannað það hjá efnahagsbrotadeildinni hvort hægt er að flýta rannsókninni enn frekar og ljúka henni á sem skemmstum mögulegum tíma? Og ég spyr ráðherrann líka: Hefur hann látið kanna hvort það sé rétt að málið geti fyrnst í meðferðinni vegna þess að uppi eru þær skoðanir að málið sé þannig statt að hugsanlega gætu þessar kröfur fyrnst og þá er auðvitað mikilvægt að hægt sé að hraða rannsókninni eins og kostur er.