131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Stofnun íþróttaakademíu í Reykjanesbæ.

[10:44]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er fagnaðarefni að koma eigi á fót öflugri menntastofnun í Reykjanesbæ sem ber vinnuheitið Íþróttaakademían. Það er fagnaðarefni og því ber að samgleðjast þeim Reyknesingum að útlit sé fyrir að kraftmikil menntastofnun komist þar á laggirnar sem megi verða til að efla þar mann-, mennta- og atvinnulíf. Um það er ekkert nema gott að segja.

Feluleikur hæstv. menntamálaráðherra er hins vegar ámælisverður, líkt og hv. málshefjandi Kolbrún Halldórsdóttir kom á. Hann er ámælisverður að öllu leyti. Það er fáránlegt að þingheimur og þjóð fái af því fréttir á síðum dagblaðanna að koma eigi á fót nýrri menntastofnun. Ég skil ekki út á hvað feluleikurinn gengur. Hæstv. ráðherra sem og aðrir sem að þessu máli koma hljóta að vera stolt af því að stofnsetja eigi menntastofnun, íþróttaakademíu í Reykjanesbæ sem og annars staðar á landinu. Þess vegna hlýtur ráðherra að skulda þinginu skýringar á þessum undarlega feluleik í máli sem hlýtur að verða okkur öllum til framdráttar og sóma, það er engin ástæða til að ætla annað.

Einnig skuldar ráðherra skýringar á því hver áhrifin á starfsemi íþróttafræðaseturs Kennaraháskóla Íslands á Laugarvatni verða að hennar mati. Rektor kennaraháskólans, Ólafur Proppé, hefur lýst því yfir að verði annar íþróttakennaraskóli stofnsettur sé allt útlit fyrir að færa þurfi starfsemina á Laugarvatni til Reykjavíkur til að hagræða og byggja undir hana. Það væri mjög vond þróun. Við viljum örugglega flest að áfram verði haldið úti öflugu íþróttakennarastarfi á Laugarvatni og ráðherra verður að færa okkur heim sanninn um það og tryggja að svo verði áfram þrátt fyrir hið góða framtak í Reykjanesbæ.