131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Stofnun íþróttaakademíu í Reykjanesbæ.

[10:46]

Hjálmar Árnason (F):

Virðulegur forseti. Ég skil eiginlega ekki þennan neikvæða tón og þá tortryggni sem hér kemur fram varðandi íþróttaakademíu á Suðurnesjum. Það er rétt að vekja athygli á því að hvergi á landinu er hlutfallsleg þátttaka ungs fólk í íþróttum jafnmikil og á Suðurnesjum, og miðað við stærð sveitarfélaga þar er líklega hvergi jafnmikið af Íslands- og bikarmeisturum í hinum ýmsu íþróttagreinum. Það má því segja (Gripið fram í.) að íþróttaakademía smellpassi í það umhverfi.

Það hlýtur að vera fagnaðarefni ef sjálfstæður háskóli, Háskólinn í Reykjavík, fer til samstarfs við sveitarfélög á Suðurnesjum, við öfluga íþróttahreyfingu á Suðurnesjum, Fjölbrautaskóla Suðurnesja og umhverfið þar. Þetta er sjálfstæð ákvörðun sjálfstæðs háskóla í samstarfi við sveitarfélög og aðila á Suðurnesjum. Ég hefði haldið að menn mundu fagna því, og ekki síður að Háskólinn í Reykjavík skuli færa út kvíarnar og koma upp útibúi í samstarfi við aðila úti á landi. Ég hefði haldið að það væri fagnaðarefni.

Og hvað ætlar þessi skóli að gera, Íþróttaakademían? Sinna íþróttakennslu, sinna líka þeim þætti sem hefur vantað inn, þ.e. þjálfun og kennslu fyrir þjálfara og leiðbeinendur í íþróttum, og að sjálfsögðu að sinna rannsóknum eins og akademíu ber að gera. Þetta eru metnaðarfull áform.

Hvað varðar áhyggjur af Laugarvatni er engin ástæða til þess að hafa þær. Þar er kröftug starfsemi og hún mun verða það áfram. Ég vek athygli á því að Laugarvatn hefur ekki getað tekið við nema u.þ.b. helming af umsækjendum í íþróttaskólann þar, og þar að auki sýnir reynslan að þegar nýir skólar koma upp fjölgar umsækjendum.

Þess vegna skil ég ekki þennan neikvæða tón og þessa tortryggni. Menn ættu að fagna því að fá öflugra íþróttastarf og -kennslu og öflugra menntastarf hér á landi en ekki að vera að draga upp þennan neikvæða tón.