131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Stofnun íþróttaakademíu í Reykjanesbæ.

[10:53]

Pétur Bjarnason (Fl):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Hjálmar Árnason talaði um neikvæða umræðu gagnvart hinni nýju stofnun sem er verið að setja þarna á fót. Ég hef frekar heyrt á þingmönnum að þeir fagni því að fjölbreytni aukist, og sérstaklega fagna ég fjölbreytni á landsbyggðinni í öllu sem þar fer fram, svo framarlega sem það kemur ekki niður á öðrum þáttum sem einnig eru reknir á landsbyggðinni.

Ég hef miklar áhyggjur af því, þó að ég óski þessari sportakademíu alls hins besta, að starfsemi hennar komi niður á starfi Kennaraháskóla Íslands sem var fyrir skömmu falið að annast nám af þessu tagi. Nýlega kom fram að kennaraháskólinn verður að vísa frá þúsund nemendum, og m.a. vegna þess að þó nokkuð af fjármagni til kennslu fer frá honum til Háskólans í Reykjavík, e.t.v. að hluta vegna þessa, ég þekki það ekki. Ég hef miklar áhyggjur af því að Laugarvatn, þrátt fyrir að þar verði vilji til að taka upp samkeppni um þetta, muni vegna baráttunnar um fjármagnið eiga mjög erfitt með að standast þessa samkeppni. Það væri mjög miður ef öll sú uppbygging sem þar fer fram, sú saga sem þar er og aðstaða til íþróttakennslu nýttist ekki í framtíðinni.

Það sem þessi umræða snýst aðallega um er hversu brátt þessa framkvæmd ber að og hversu litlar upplýsingar hv. alþingismenn virðast hafa fengið um þessi mál í upphafi þess að þetta kemur hingað inn.