131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Stofnun íþróttaakademíu í Reykjanesbæ.

[10:54]

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Herra forseti. Það er ekki laust við að maður upplifi sig eins og boðflennu í samkvæmi því að hér hafa nær allir þingmenn Suðurk. tekið til máls en eins og herra forseti veit er ég ekki þingmaður þess kjördæmis.

Það vekur hins vegar athygli mína að hér er verið að ræða um stofnun á háskólastigi og það er auðvitað fagnaðarefni þegar hæstv. menntamálaráðherra gefur í skyn að nú sé nægjalegt fjármagn til að efla nám á háskólastigi. Því ber auðvitað að fagna alveg sérstaklega.

Það er hins vegar áhugavert að átta sig á því að hér er verið að setja af stað skóla á háskólastigi sem á að tengjast annarri stofnun á háskólastigi, þ.e. Háskólanum í Reykjavík, sem einnig er nýlega búið að ákveða að sameina Tækniháskóla Íslands þannig að hér er væntanlega að verða stór og öflug stofnun.

Það sem ég vil, herra forseti, vekja alveg sérstaka athygli á er að fram hefur komið í fjölmiðlum að þarna er verið að hverfa frá sjálfseignarstofnunarforminu og taka upp hlutafélagaform. Þetta er algjörlega nýtt í háskólastigi á Íslandi og það er með ólíkindum að slíkir hlutir skuli gerast án þess að þeir séu ræddir á hinu háa Alþingi. Það er ekki bara að þetta sé einstakt á Íslandi, þetta er afar fátítt í heiminum. Hér er greinilega verið að fara inn á nýja braut sem er eðlilegt að hæstv. menntamálaráðherra ræði sérstaklega við þingheim en fari ekki út í bæ og skrifi undir samninga án þess að ræða það vitund við þingheim. Hvergi hefur þetta verið rætt í þingnefndum þannig að hér er verið að fara algjörlega inn á nýja braut.

Það er rétt að vekja athygli á því að miðað við þær takmörkuðu upplýsignar sem við höfum séð í fjölmiðlum er t.d. gert ráð fyrir því að stjórn hlutafélagsins sé einnig háskólaráð í hinum nýja háskóla. Þetta er einstakt og þekkist líklega hvergi á byggðu bóli.

Það er nauðsynlegt, herra forseti, að hæstv. menntamálaráðherra geri grein fyrir því hvað hér er á ferðinni.