131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[11:31]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg):

Herra forseti. Ég, fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í fjárlaganefnd, mæli fyrir nefndaráliti 2. minni hluta fjárlaganefndar sem ég stend að. Auk þess ritar undir álitið fulltrúi Frjálslynda flokksins, hv. þm. Pétur Bjarnason, áheyrnarfulltrúi í fjárlaganefnd, og er hann samþykkur því áliti sem hér er lagt fram.

Í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2004 er lagt til að útgjöld ríkissjóðs verði aukin um rúma 6,3 milljarða kr. Enn fremur liggja fyrir tillögur frá ríkisstjórn og meiri hluta fjárlaganefndar um aukin útgjöld sem nema tæpum 3 milljörðum kr. Samtals eru því tillögur um tæpa 9,3 milljarða kr. aukningu á fjárlögum ársins 2004 í því frumvarpi til fjáraukalaga sem hér liggur fyrir.

Í 41. gr. stjórnarskrárinnar segir að ekkert gjald megi greiða af hendi nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum. Í 43. gr. laga um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997, segir að ef þörf krefur skuli í frumvarpi til fjáraukalaga leitað eftir heimildum til frekari fjárráðstafana en fjárlög ársins gera ráð fyrir. Engin skilyrðislaus skylda hvílir á ríkisstjórn að leggja fjáraukalagafrumvarp fyrir hvert reglulegt þing heldur fer það eftir þörfinni hverju sinni. Í reyndinni er aukafjárveitinga þörf á hverju ári enda getur ýmislegt breyst í tekjuöflun eða útgjöldum ríkisins og stofnana þess á heilu ári eins og við höfum ætíð staðið frammi fyrir hér. Í 44. gr. laga um fjárreiður ríkisins kemur fram hvenær er heimilt að greiða fé úr ríkissjóði án heimildar í fjárlögum. Þar segir að valdi ófyrirséð atvik, kjarasamningar eða ný löggjöf því að grípa þurfi til sérstakra fjárráðstafana sem ekki var gert ráð fyrir í fjárlögum ársins skuli leitað heimilda fyrir þeim í frumvarpi til fjáraukalaga. Undanfarin ár hafa mörg hver þau fjárútlát sem fjáraukalagafrumvarp hefur kveðið á um, svo sem vegna mennta- og heilbrigðismála, verið fyrirsjáanleg við gerð fjárlaga og því átt heima í fjárlagafrumvarpi þess árs. Þrátt fyrir að í þessu frumvarpi hafi dregið úr slíku þá er enn að finna dæmi um að kveðið sé á um fjárútlát sem áttu heima í fjárlagafrumvarpi ársins 2004 af því að þau voru fyllilega fyrirsjáanleg.

Ef litið er á stöðu framhaldsskólanna er í frumvarpi til fjáraukalaga og breytingartillögum frá ríkisstjórn og meiri hluta fjárlaganefndar lagt til að fjárveiting til framhaldsskóla verði aukin um 450 millj. kr. Við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2004 lá fyrir að fjárveiting til framhaldsskóla væri vanáætluð. Bent var á þetta í umræðum um frumvarpið á sínum tíma enda lágu gögn fyrir sem sýndu fram á það mjög rækilega. Minna má t.d. á að stjórn Félags framhaldsskólakennara gagnrýndi þessa vanáætlun nemenda. Í framhaldi af þessari vanáætlun ríkisstjórnarinnar og samþykktar Alþingis á fjárlögum fyrir yfirstandandi ár, sem allir sáu reyndar nema nema ríkisstjórnin og meiri hluti hennar, skapaðist vandræðaástand í þjóðfélaginu síðastliðið sumar þegar margir nemendur gátu ekki fengið skólavist vegna fjársveltis framhaldsskólanna. Þegar ljóst var að í fullt óefni var komið samþykktu stjórnvöld að setja meiri fjármuni til framhaldsskólanna svo hægt væri að taka á móti fleiri nemendum. Þó að hér sé gerð tillaga um 450 millj. kr. viðbót í fjáraukalögum skortir þó enn að mati framhaldsskólanna um 200 millj. kr. til þess að þeir geti fjármagnað skólastarfið og mætt auknum fjölda nemenda sem koma inn í skólana í haust. Svona vinnubrögð af hálfu stjórnvalda eru hreint og beint afleit. Auk þess má nefna að allmargir framhaldsskólar sitja eftir með óuppgerðan halla frá fyrri árum sem er þeim síðan baggi frá ári til árs og það er afleit stjórnsýsla að ekki skuli á þessum halla tekið og hann leiðréttur.

Herra forseti. Framhaldsskólarnir eru einmitt dæmi um slæma fjársýslu af hálfu ríkisstjórnarinnar og meiri hlutans á Alþingi. Það lágu öll gögn fyrir við fjárlagagerðina fyrir ári síðan um að veruleg aukning nemenda yrði á þessu hausti og að vanta mundi fjármagn til að takast á við það. Engu að síður skelltu menn skollaeyrum við þeirri þörf og þeirri vitneskju. Svo er nú verið að draga þessi vandamál í land með aukafjárveitingum eftir að bæði nemendur og hinir ýmsu skólar hafa mátt stíga krappan dans á liðnu sumri þar sem vafi lék á hvort þeir fengju skólavist eða ekki.

Það er ágætt að minna á fylgiskjal með þessu nefndaráliti. Það er minnisblað um fjárhagsstöðu framhaldsskólanna sem Félag íslenskra framhaldsskóla og Skólameistarafélag Íslands kynntu fyrir fjárlaganefnd nú nýverið. Þar segir, með leyfi forseta:

„Fjárhagsstaða flestra framhaldsskóla er mjög slæm. Hallarekstur hefur verið viðvarandi hjá mörgum skólum undanfarin ár. Sérstaklega er þó athugavert að um og eftir 2000 hallar mjög undan fæti, ...“

Vísað er í BS-ritgerð nemanda við Háskólann í Reykjavík, Eyrúnar Jónsdóttur, sem fór ítarlega í gegnum þetta mál.

„Útlit er fyrir að halli ársins 2003 sé 60 milljónir og er þá uppsafnaður halli orðinn 570 milljónir.“

Herra forseti. Framhaldsskólarnir eru reknir fullkomlega á ábyrgð ríkisins og samkvæmt almennum fjárreiðulögum og samkvæmt lögum um fjárreiður stofnana ætti ekki að vera heimilt að láta stofnanir eins og framhaldsskóla bera halla á milli ára. Ríkisendurskoðun hefur ítrekað bent á hversu léleg stjórnsýsla þetta er og röng. Engu að síður lætur ríkisstjórnin og meiri hlutinn á Alþingi þetta viðgangast og framhaldsskólarnir eru látnir bera halla frá ári til árs, framhaldsskólar sem eru reknir á ábyrgð ríkisins samkvæmt lögum sem ríkið ber ábyrgð á um menntun nemenda í framhaldsskólum.

Síðan segir í þessu minnisblaði frá Félagi íslenskra framhaldsskóla og Skólameistarafélagi Íslands, með leyfi forseta:

„Margt bendir til þess að í fjárveitingum hafi framhaldsskólar dregist aftur úr öðrum mikilvægum stofnunum þjóðfélagsins. Vísbendingar eru einnig um að Ísland hafi dregist aftur úr öðrum löndum í fjárveitingum til framhaldsstigsins. Á þessu þarf að gera nákvæma úttekt.

Reiknilíkan menntamálaráðuneytis er fyrst og fremst tæki til að skipta fé. Erfiðlega hefur gengið að átta sig á því hvernig þetta líkan virkar. Í reglugerð er sagt að líkanið skuli vera í tölvuformi, aðgengilegt skólum og þeim sem vilja kynna sér hvernig það vinnur. Reiknilíkanið er ekki aðgengilegt.“

Vert er að hafa þessar ábendingar í huga einmitt þegar ríkið síðan upp á sitt eindæmi ákveður á haustdögum að auka fjárveitingar til skólanna, náttúrlega vegna augljósrar fjárþarfar. Þegar spurt er hvers vegna 250 millj. kr. voru valdar eða hvort 400 millj. kr. verði valdar þá er ekki hægt að fá neinn rökstuðning fyrir því hvernig þær upphæðir eru fundnar út. Það er mat stjórnenda skólanna sem verða að vinna eftir þessu reiknilíkani að a.m.k. 200 millj. kr. vanti inn í þetta ár til þess að nægilegt sé. Svona vinnubrögð eru alveg ótæk og það er mjög erfitt fyrir forstöðumenn þessara stofnana og starfsemi þeirra að vita ekki á hvaða grunni þeir geta byggt.

Ef við víkjum að Háskóla Íslands þá er svipað uppi á teningnum þar. Beiðni hefur komið frá Háskóla Íslands um aukafjárveitingu upp á rúmar 223 millj. kr. Ástæðu beiðninnar má rekja til þess að skólinn hefur ekki fengið greitt fyrir alla nemendur. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs teljum mikilvægt að standa vörð um Háskóla Íslands. Háskóli Íslands er langstærsta kennslu- og rannsóknastofnun landsins. Háskólinn er þjóðskóli og á sem slíkur að vera öllum opinn sem uppfylla skilyrði til að geta hafið nám við skólann.

Á síðastliðnu hausti þrengdi Háskóli Íslands inntökuskilyrðin og setti nemendur með ákveðinn undirbúning í forgang við umsókn um skólavist. Því er ljóst að Háskóli Íslands er ekki að starfa af fullu sem opinn þjóðskóli. Rökin sem hann færði fyrir þessu var að fjármagn sem hann fær til starfsemi sinnar er skorið svo við nögl að hann verður að neita nemendum um skólavist. Vinstri hreyfingin – grænt framboð styður því að Háskóli Íslands og aðrir ríkisháskólar fái fjármagn til þess að geta axlað þá lagalegu skyldu sína að taka á móti þeim nemendum sem uppfylla inntökuskilyrði í skólann og vilja sækja þar um skólavist.

Enn eitt dæmið um fjárlagavinnuna eru t.d. héraðsdómstólar. Í frumvarpi til fjáraukalaga er kveðið á um aukningu á fjárveitingu til héraðsdómstóla um 35 millj. kr. Vanáætlun í fjárveitingum til héraðsdómstólanna er ekki eitthvað sem á að koma stjórnvöldum á óvart. Þetta var svo rækilega vitað við afgreiðslu fjárlaganna síðastliðið haust. Fulltrúar héraðsdómstólanna sendu erindi til fjárlaganefndar um að fjármagn sem þeim væri ætlað í fjárlögum fyrir árið 2004 væri af svo skornum skammti að þeir gætu ekki haldið uppi nauðsynlegri og eðlilegri málsmeðferð og vinnslu mála eins og þeim bæri skylda til lögum samkvæmt.

Á þetta var bent við fjárlagagerðina fyrir ári síðan en meiri hlutinn daufheyrðist við þeim augljósu staðreyndum sem staðið var frammi fyrir. Sem betur fer er þó verið að draga nokkurn hluta þessa vanda í land nú með fjáraukalögum. Svona vinnubrögð ættu að vera óþörf.

Það er búið að nefna Landspítala – háskólasjúkrahús en í frumvarpinu er lögð til 668 millj. kr. fjárveiting á aukafjárlögum til Landspítala – háskólasjúkrahúss. Draga má stórlega í efa að þessi upphæð dugi svo sjúkrahúsið geti staðið með eðlilegum hætti að þeirri þjónustu sem við viljum að það veiti og því ber skylda til. Fulltrúar sjúkrahússins bentu á við fjárlagagerðina fyrir ári síðan að þessa upphæð vantaði inn og reyndar gott betur til að endar næðu saman og haldið yrði óbreyttri þjónustu. Jafnframt bentu þeir á að fjárveitingar til reksturs spítalans á föstu verðlagi hafa nánast staðið í stað á árunum 1999–2004.

Landspítali – háskólasjúkrahús er kannski sú stofnun sem hvað harðast hefur verið sótt að af þessari ríkisstjórn og meiri hluta Alþingis með skertar fjárveitingar og hefur það verið knúið til sársaukafulls niðurskurðar á starfsemi og uppsagna starfsfólks.

Ef við lítum til sveitarfélaganna hefur fjárhagur margra sveitarfélaga verið mjög erfiður undanfarin ár. Mörg sveitarfélögin hafa verið rekin með halla frá 1990 en samkvæmt upplýsingum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga bendir til að um 2,8 milljarða kr. halli hafi verið á rekstri sveitarfélaganna árið 2003. Hér er að vísu bara um meðaltalstölur að ræða þannig að sum sveitarfélög standa sig vel eða bærilega en flestöll eiga í rekstrarerfiðleikum og sum í miklum. Sem dæmi tók eftirlitsnefnd sveitarfélaga nýlega til sérstakrar athugunar reikningsskil 47 af 101 sveitarfélagi sem sent höfðu inn gögn. Í framhaldi af þeirri skoðun var ákveðið að skrifa 23 sveitarfélögum sérstaklega til að krefja þau um nánari skýringar. Skattabreytingar ríkisstjórnarinnar hafa jafnframt kostað sveitarfélögin stórfé. Fjölgun einkahlutafélaga hefur t.d. kostað sveitarfélögin að því að talið er 1.000–1.200 millj. kr. á ársgrundvelli. Verkefni hafa verið flutt til sveitarfélaganna án þess að tekjustofnar fylgdu á fjölmörgum sviðum.

Á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga sem haldin var nú í byrjun nóvember var ítarlega gerð grein fyrir fjárhagsstöðu sveitarfélaganna og hvernig stöðugt hefði hallað á þau í samskiptum við ríkisvaldið. Var þar kynnt að sveitarfélögin mundu fara fram á 700–1.000 millj. kr. aukaframlag í ár til að létta stöðu sveitarfélaganna sem verst stæðu. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs munu leggja fram tillögu um að aukaframlag til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga verði 700 millj. kr. í stað 400 millj. kr. sem meiri hlutinn leggur til.

Í breytingartillögum frá ríkisstjórn og meiri hluta fjárlaganefndar er gerð tillaga um 400 millj. kr. framlag í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga til að koma til móts við sveitarfélög í sérstökum fjárhagsvanda, t.d. vegna fækkunar íbúa og erfiðra ytri aðstæðna. Félagsmálaráðherra mun ákveða úthlutun fjárins í samráði við ráðgjafarnefnd sjóðsins og að fengnum tillögum tekjustofnanefndar. Spurning er þó hvernig ríkisstjórnin og meiri hluti fjárlaganefndar komust að þeirri niðurstöðu að 400 millj. kr. væri sú upphæð sem til þyrfti til þess að rétta hag hinna verst stöddu því forustumenn sveitarfélaganna höfðu kynnt þörf fyrir mun hærri upphæð til þess að leysa brýnan og bráðan vanda. Það er því ljóst að fara þarf miklu betur yfir þetta mál, t.d. hvernig á að skipta þessum fjármunum. Jafnframt er brýnt að taka á þessum málum til framtíðar svo ekki þurfi að koma til svona björgunaraðgerða sem þó má velta fyrir sér hvort nægjanlegar eru. Það er því eitt brýnasta málið í samskiptum ríkis og sveitarfélaga að farið sé ofan í tekjustofnaskiptinguna og gerðar á þeim nauðsynlegar leiðréttingar miðað við núverandi verkefnastöðu sveitarfélaganna. Ásættanlegar niðurstöður í þeirri endurskoðuðu tekjuskiptingu verða að mínu mati að liggja fyrir á þessu ári þannig að ekki sé verið að etja sveitarfélögum út í sameiningarkosningar eða taka við auknum verkefnum af hálfu ríkisins fyrr en komið er á hreint að grunnur þeirra miðað við stöðu dagsins í dag liggur samþykktur fyrir.

Á síðustu dögum og vikum höfum við upplifað hina hörðu kjaradeilu milli sveitarfélaga og Félags grunnskólakennara þar sem grunnskólakennarar hafa lagt hart að sér og fært miklar fórnir til að leita eftir bættum kjörum. Hins vegar er fjárhagsstaða sveitarfélaganna mjög erfið og fjárhagsrammi þeirra í rauninni skammtaður af ríkinu þannig að samningsstaða þeirra hefur nánast engin verið. Til þess að sveitarfélögin geti mætt bæði eðlilegum launa- og kjarakröfum starfsmanna sinna og staðið við auknar kröfur í velferðarþjónustunni er mikilvægt að tekjur þeirra og tekjustofnar séu auknir. Það er eitt brýnasta viðfangsefni dagsins í dag að styrkja og efla tekjustofna sveitarfélaganna miðað við þau verkefni sem þau hafa í dag.

Ef við lítum á stöðuna við opinberar framkvæmdir er ljóst að stöðugt þarf að vanda betur kostnaðaráætlun við þær. Allt of oft er verið að samþykkja auknar fjárveitingar vegna framúrkeyrslu við opinberar framkvæmdir. Í frumvarpi til fjáraukalaga sem nú liggur fyrir er meðal annars óskað eftir auknum fjárveitingum vegna framkvæmda við Alþingishús, Gljúfrastein og Þjóðminjasafnið. Sérstaka athygli vekur fjárveiting til Þjóðminjasafns Íslands þar sem farið er fram á 20 millj. kr. aukafjárveitingu í tilefni af opnun safnsins. Það var gleðiefni að loksins skyldi vera hægt að opna Þjóðminjasafnið og með svo veglegri sýningu sem raun ber vitni. En það hafði staðið til í nokkur undanfarin ár og alltaf verið lofað á næsta ári þannig að það er sérstakt fagnaðarefni að það skuli þó hafa tekist í ár. Það var ljóst að fjárveitingu vegna uppsetninga á sýningum og vegna kynningarmála þyrfti til og athygli var vakin á því við gerð fjárlaga þessa árs að það hlyti að hafa kostnað í för með sér að setja upp sýningu. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs lögðum einmitt áherslu á það við afgreiðslu fjárlaga fyrir ári síðan. Þetta er enn eitt dæmið um lélega áætlanagerð þar sem hlutirnir eru gerðir upp í fjáraukalögum en lágu fyrir við gerð fjárlaganna sjálfra.

Fleiri stofnanir og verkefni á vegum ríkisins búa við fjárskort vegna vanáætlunar útgjalda en fá hann ekki bættan í fjáraukalögum. Aftur virðist gæluverkefnum ríkisstjórnarinnar hampað, svo sem eflingu sérsveita lögreglunnar sem virðast á leið með að verða vísir að íslenskum her. Þá er til fjármagn til þess að spýta í. Þá er aukið framlag um 100 millj. kr. til svokallaðra friðargæslustarfa sem birtist okkur í raun sem eins konar hervæðing íslenskra ríkisborgara við hlið hersveita Bandaríkjamanna og NATO. Ég er fylgjandi því að við styrkjum og eflum störf okkar að friðarmálum erlendis og að við gerum það á okkar forsendum og þar sem við erum sterk fyrir, í mannúðarmálum, í atvinnumálum, í heilbrigðismálum, en ekki til þess að hervæða íslenska borgara til að taka þátt í hernaðaraðgerðum í fjarlægum löndum og setja þar með Íslendinga í skotlínu út um allan heim. Þetta er hörmuleg stefna en hún fær hljómgrunn í fjáraukalögum þess meiri hluta sem styður þessa ríkisstjórn.

Herra forseti. Til að bæta vinnulagið og tryggja að farið sé að lögum hefur flutningsmaður nefndarálits þessa tvívegis mælt fyrir frumvarpi til laga um breytingar á lögum um fjárreiður ríkisins. Þær fela í sér að þegar svo ber undir skuli fjármálaráðherra leggja fram frumvarp til fjáraukalaga fyrir Alþingi að vori og aftur að hausti. Þingið samþykkir lög fyrri hluta árs en þau geta haft í för með sér fjárskuldbindingar á sama ári. Ýmsar forsendur geta einnig breyst, eins og dæmin sanna, og þá er eðlilegt að bregðast við þeim. Það hlýtur því að liggja beint við að fjárlaganefnd tæki þau mál til meðferðar og legði fram fjáraukalagafrumvarp sem yrði afgreitt fyrir þinglok að vori. Önnur fjáraukalög væri hægt að afgreiða í byrjun október og síðan kæmu lokafjárlög. Með þessum hætti gæti Alþingi fylgt eftir ábyrgð sinni, stýrt útgjöldum og brugðist við breyttum forsendum. Þannig yrði einnig komið í veg fyrir að efnt væri til útgjalda án heimildar Alþingis nema í algjörum undantekningar- og neyðartilvikum, eins og lög um fjárreiður ríkisins kveða á um. Slíkt fyrirkomulag hefði t.d. komið sér vel síðastliðið vor því þá hefði verið hægt að samþykkja auknar fjárveitingar til framhaldsskóla þannig að skólar hefðu strax getað svarað nemendum um það hvort og hvar þeir fengju skólavist. Í staðinn þurftu margir nemendur að bíða í óvissu vikum og mánuðum saman um hvort þeir fengju skólavist eða ekki.

Enn fremur hefur flutningsmaður lagt til að vinnunni við fjárlagagerðina verði breytt. Nú hefst undirbúningur að fjárlagavinnu hvers árs á fyrri hluta ársins á undan, þ.e. í apríl. Vegna þessa væri rétt að ríkisstjórnin legði fram frumvarp eða ramma að fjárlögum næsta árs fyrir þinglok og það yrði rætt áður en vorþingi lyki. Í raun yrði þar samþykktur ramminn sem unnið yrði eftir við undirbúning fjárlaga næsta árs. Eftir slíka meðferð þingsins gæti framkvæmdarvaldið síðan haldið áfram að undirbúa fjárlagafrumvarpið sem fjármálaráðherra legði síðan fram fyrir hönd ríkisstjórnarinnar í upphafi haustþings. Með þessu móti væri frumvarpið og fjárlögin unnin í meiri samvinnu við Alþingi en nú er og á eðlilegri ábyrgð þess.

Herra forseti. Ég tel einmitt síðustu áherslurnar í nefndarálitinu mjög mikilvægar, að þingið eigi að bera ábyrgð á einstökum fjárlagaliðum og fjárútgjöldum á vegum ríkisins og að þau þurfi að koma til Alþingis til umræðu og afgreiðslu. Eins og nú er stendur Alþingi oft að meginhluta til frammi fyrir gjörðum hlut. Gerðar hafa verið skuldbindandi ákvarðanir um þau fjárútlát sem verið er að kveða á um og Alþingi á í flestum tilvikum litla aðra möguleika en að segja já við þeim.

Herra forseti. Með nefndarálitinu eru síðan fylgiskjöl, m.a. grein eftir hv. þm. Steingrím J. Sigfússon og undirritaðan sem birtist í Morgunblaðinu 29. september 2004, sem ber yfirskriftina Sveitarfélögin svelt til hlýðni, og ég hef gert að umtalsefni í þessu nefndaráliti. Auk þess er líka fylgiskjal um fjárhagsstöðu framhaldsskólanna, minnisblað með athugasemdum og ábendingum frá Félagi íslenskra framhaldsskóla og Skólameistarafélagi Íslands frá 10. nóvember sl. til frekari skýringar.

Á þskj. 391 er breytingartillaga sem ég flyt við þessa umræðu þar sem ég legg til að fjárveitingar til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga verði auknar. Í stað þeirra 400 millj. kr. sem lagðar eru til af meiri hlutanum til jöfnunarsjóðsins til þess að mæta sérstökum bráðavanda sveitarfélaganna legg ég til að sú upphæð verði að lágmarki 700 millj. kr., eða sú upphæð sem fram kom á ráðstefnu um fjármál sveitarfélaga nýverið að væri algjör lágmarksupphæð til að mæta þeim vanda sem ég hef hér gert grein fyrir.