131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[12:49]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég tek eftir því að hæstv. fjármálaráðherra er ekki lengur viðstaddur umræðuna. Eins er væri varaformaður fjárlaganefndar, hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, 9. þm. Norðvest., velkominn í salinn ef hann er hér einhvers staðar á nálægum slóðum, því ég ætlaði aðeins að víkja orði að ummælum hans í fjölmiðlum í gærkvöldi og í morgun varðandi sveitarfélög og kjarasamninga þeirra við kennara.

Ég þarf í sjálfu sér ekki að bæta miklu við ítarlega framsöguræðu Jóns Bjarnasonar, talsmanns okkar í þessum málaflokki, sem gerði grein fyrir nefndaráliti 2. minni hluta fjárlaganefndar við þessi fjáraukalög. Það eru tvö eða þrjú atriði sem ég ætlaði aðeins lítillega að koma inn á, fyrst og fremst þó málefni sveitarfélaganna og þá afgreiðslu sem þau fá eða öllu heldur ekki fá í fjárlaukalagafrumvarpinu, en nefni kannski fyrst aðeins framhaldsskólana.

Það er heldur snautlegt fyrir meiri hlutann, svo ekki sé fastar að orði kveðið, að þurfa í fjáraukalagafrumvarpi þegar árið er langt gengið að viðurkenna að auðvitað var allt rétt og rúmlega það sem sagt var um þá afgreiðslu sem framhaldsskólastigið fékk í fjárlögum ársins, og maður spyr sig auðvitað að því: Hvað á slíkur yfirgengilegur vandræðagangur að þýða eins og búið er að bjóða upp á t.d. í þeim málaflokki? Ekki er hægt að kenna sveitarfélögunum eða einhverjum aðilum úti í bæ um það, framhaldsskólastigið er hjá ríkinu, þar hefur ríkið allt í sínum höndum, hina faglegu þætti í menntamálaráðuneytinu og fjárveitingarnar í gegnum fjárlög ársins. Hver er útkoman á þessum málaflokki? Hún er sú, frú forseti, að skólarnir stóðu frammi fyrir því að geta ekki tekið inn nemendur, geta ekki tekið við öllum nemendum í þeim árgöngum sem voru að koma inn í skólana, geta ekki tekið við árganginum sem var að ganga upp úr grunnskólunum og upp í framhaldsskólana, geta ekki tekið við nemendum sem voru að koma aftur til náms í framhaldsskólakerfinu eftir að hafa gert hlé á námi. Menn voru í standandi vandræðum með málið og eru í raun og veru enn. Þetta blasti við, þetta sáu allir.

Hvaða metnaðarleysi er það þá að ganga engu að síður þannig frá hlutunum að það vantar augljóslega stórar fjárhæðir inn í framhaldsskólareksturinn? Því er lokað vísvitandi þannig að þar er fjárvöntun upp á fleiri hundruð milljóna króna og menn manna sig ekki einu sinni upp í að taka á því til fulls þó að settar séu inn 200 millj. kr. í þessum breytingartillögum til viðbótar 250 millj. í frumvarpinu. Þetta eru eins konar smáskammtalækningar. Viðurkennt er að þarna vanti upp undir hálfan milljarð króna eða með öðrum orðum að komið er til móts við þennan vanda framhaldsskólanna svo nemur tæpum hálfum milljarði króna og þá standa út af kannski 200 millj. Þarna er á ferðinni nákvæmlega sú tala, ef ég man rétt, sem menn voru að tala um strax í desembermánuði fyrir tæpu ári, að það vantaði fjármuni af þeirri stærðargráðu inn í framhaldsskólana til þess að þeir gætu sinnt sínu lögbundna hlutverki sómasamlega.

Nei, fjárlögunum er lokað þannig að það er ekkert komið til móts við þetta. Fjáraukalagafrumvarpið er lagt fram með 250 millj. upp í vandann og svo koma breytingartillögurnar við 2. umr. með 200 millj. þar í viðbót. Verður kannski komið í 3. umr. með einn skammtinn enn þannig að menn taki þetta í þremur skömmtum? Finnst meiri hlutanum betra að gera þetta svona, er meiri reisn yfir því? Eru þeir stoltir, formaður og varaformaður fjárlaganefndar, af þessum búskap og þessari ráðsmennsku sinni?

Hvar er hæstv. menntamálaráðherra? Er það ekki neyðarlegt fyrir, mér liggur við að segja, frú forseti, aumingja hæstv. menntamálaráðherra að standa frammi fyrir því að svona er að málinu staðið af hálfu ríkisvaldsins? Jú, þetta er auðvitað alveg dæmalaus handarbakavinna.

Verst er svo auðvitað að í framhaldsskólakerfinu er uppsafnaður vandi. Búið er að leika þennan leik lengi og margir skólanna hafa um árabil dregið skuldahala. Mín gamla góða menntastofnun, Menntaskólinn á Akureyri, var að berjast við þetta og bætti svona heldur í halann, að rúlla á undan sér 30, 45 millj. kr., þannig stóð það a.m.k. fyrir tveim, þrem, fjórum árum síðan, og gamalreyndir stjórnendur eins og Tryggvi Gíslason reittu hár sitt í reiði, því hvað á það að þýða að bjóða mönnum upp á slíkt og taka ekki á hlutum af þessu tagi?

Ég hefði gaman af að fá að heyra það frá formanni fjárlaganefndar eða fjármálaráðherra hvað þeir segja um þessa útkomu á framhaldsskólaþætti málsins og vildi kannski spyrja þá í leiðinni: Á svo að klára dæmið með 200 millj. viðbótarbreytingartillögu við 3. umr. þannig að þá verði nokkurn veginn komin sú upphæð sem allir sáu strax í fyrra að vantaði inn í framhaldsskólana til að unnt yrði að halda þar uppi skólastarfi með eðlilegum hætti og kenna vaxandi fjölda nemenda sem sem betur fer sækir inn í framhaldsskólana? Það eru enn mjög stórir árgangar að ganga upp í gegnum skólakerfið þó að því miður horfi til þess að það breytist á næstu árum, eins og sjá má t.d. í fjölda árganga á leikskólastiginu.

Í öðru lagi, frú forseti, aðeins um Atvinnuleysistryggingasjóð. Hér er lögð til, sem að sjálfsögðu er eðlilegt, nokkur breyting á fjárveitingum til sjóðsins vegna þess að menn verða að horfast í augu við veruleikann eins og hann. Og hver er veruleikinn? Jú, hann er aukið atvinnuleysi. Það er afar umhugsunarverð staðreynd. Í fyrirspurnatíma á Alþingi í gær ræddum við þetta og ég lagði fyrirspurnir fyrir hæstv. félagsmálaráðherra sem tengdust m.a. svonefndu langtímaatvinnuleysi. Þar komu fram þær staðreyndir að milli 16 og 17% af þeim sem nú eru á atvinnuleysisskrá hafa verið atvinnulausir í meira en ár. Það eru nokkur hundruð ungmenni á aldrinum 16–24 ára sem hafa verið atvinnulaus í ár eða meira. Í breytingartillögum er lögð til 250 millj. kr. viðbót við þær 948 millj. kr. sem þegar var gert ráð fyrir í frumvarpinu. Þarna eru menn að horfast í augu við að atvinnuleysispáin stendur núna upp á 0,2% hækkun og fer þá í 3,2% á ársgrundvelli að meðaltali.

Það er auðvitað grafalvarlegt og spurning hvort hæstv. ríkisstjórn hefur einhver úrræði í huga eða er með einhverri meðvitund í þessum efnum, eða á þetta bara að leysast af sjálfu sér? Ekki hefur prógrammið sem ríkisstjórnin setti upp skilað þessu. Það væri gaman að ræða þetta pínulítið við Framsóknarflokkinn því það er nefnilega svo að þegar ný störf hafa orðið til í landinu hefur Framsóknarflokkurinn gjarnan eignað sér það.

Framsóknarflokkurinn lofaði 10 þúsund nýjum störfum á einu kjörtímabili hérna á árunum. Það mun hafa verið í kosningaloforðum flokksins 1995, passar það ekki? (Gripið fram í.) Það náðist, er hér kallað fram í af formanni fjárlaganefndar. Það náðist. Mig minnir að þeir hafi stundum sagt, framsóknarmennirnir, að þeir hafi gert betur því að þeir hafi búið til 12 þúsund ný störf, þau hafi meira að segja orðið fleiri en þeir lofuðu. En, bíddu, var það svo að Framsókn byggi til öll þessi störf? Ja, þannig var það þegar þeir voru að eigna sér árangurinn. Þá var það bara eins og störfin hefðu orðið til á flokkskontórum Framsóknarflokksins í gamla Essóhúsinu við Hverfisgötu. En var það svo? Það held ég nú ekki.

En ef það er þannig að Framsóknarflokkurinn eignar sé störf sem verða til þegar vel gengur í atvinnulífinu, þá hlýtur hann líka að bera ábyrgð á því þegar ekki verða til störf og þeim fækkar, eða bætast a.m.k. ekki nóg við til þess að mæta auknum fjölda á vinnumarkaði. Atvinnuleysi er að aukast og nú ber Framsókn alla ábyrgð á því af því að nú vill svo til að Framsóknarflokkurinn er með félagsmálaráðuneytið sem vinnumarkaðsmál heyra undir, hann er með iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið sem fer með byggðamál m.a. og hann er með forsætisráðuneytið sem fer með yfirstjórn efnahagsmála. Það er því eiginlega engin leið að vísa vandanum annað eða kenna neinum öðrum um hann. Þetta er allt saman í höndum Framsóknar núna. Hvernig stendur þá á því að Framsóknarflokkurinn, sem gumar af því þegar störf verða til að þau sé öll honum að þakka, gufar upp þegar við stöndum allt í einu frammi fyrir vaxandi atvinnuleysi? Það væri fróðlegt að fá að heyra það. Á að draga það atvinnuleysi frá störfunum sem urðu til árunum 1995–1999? Hvernig er bókhaldið hjá Framsókn í þessum efnum?

Ég held að það sé því miður, frú forseti, full ástæða til að taka það til alvarlegrar umræðu á Alþingi að hér eru greinilega að verða mjög ískyggilegar breytingar á vinnumarkaði sem læðast aftan að okkur. Þær birtast okkur ekki síst í þessu vaxandi langtímaatvinnuleysi og þeirri staðreynd að þrátt fyrir þann hagvöxt sem er í gangi í landinu, sem því miður er í allt of miklum mæli drifinn áfram af eyðslu umfram efni og skuldsetningu þjóðarbúsins út á við í bullandi viðskiptahalla, slær ekkert á atvinnuleysið nema síður sé, því miður er það heldur vaxandi. Auðvitað er þarna að ýmsu að hyggja eins og því hvers eðlis það er, hvernig það er samsett og hvernig það liggur eftir landshlutum. Það er heldur meira meðal kvenna en karla og það er útbreitt meðal ófaglærðs vinnuafls. En það er umtalsvert atvinnuleysi t.d. meðal ungs fólks og það fer hratt vaxandi það hlutfall þeirra sem eru án vinnu á hverjum tíma sem flokkast undir það sem kallað er langtímaatvinnuleysi. Menn verða að horfast í augu við þetta, frú forseti, og þar á meðal og ekki síst Framsóknarflokkurinn. Ekki þýðir bara að guma af því og eigna sér hlutina þegar vel gengur en gufa svo upp og kannast ekki við hlutina þegar svo er ekki.

Ég held að ein ástæða og kannski ein helsta ástæða þess hvernig til er að takast í atvinnumálunum sé auðvitað hin blinda stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar. Það er enginn vafi á því að fórnarkostnaðurinn af þeim stórframkvæmdum hvað varðar aðstæður annars atvinnulífs, er m.a. það sem við erum að horfast í augu við. Aðstæður til nýsköpunar í almennu atvinnulífi hafa stórversnað. Gengi krónunnar er mjög sterkt, ískyggilega sterkt held ég að verði að segjast alveg eins og er, þegar menn horfast í augu við hinn mikla viðskiptahalla og afkomu t.d. útflutningsgreinanna. Er ekki dollarinn á 66 kr. í dag? Það er ekkert mjög langt síðan hann var á 110 kr. Hvernig halda menn að gangi að reka útflutningsfyrirtæki sem selur alla framleiðsluvöru sína í dollurum? Og vextirnir, jú, þeir eru á uppleið. Seðlabankinn rembist við að hækka stýrivexti til þess að reyna að halda aftur af þenslu og verðbólgu og það er auðvitað vegna þess að stórframkvæmdirnar og þenslan krefjast slíks, kalla á slíkt.

Það er því miður mjög margt sem bendir til þess að það dragi hratt núna úr fjölgun starfa í hinu almenna atvinnulífi. Það er bara veruleikinn sem menn verða að horfast í augu við. Hvað er það? Jú, það er m.a. fórnarkostnaðurinn, það eru ruðningsáhrifin af þessari atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar. Það er bara allt að koma fram. Iðnaðurinn er á hraðri leið úr landi því miður. Ég hef heyrt bara á síðustu þrem vikum eða svo af a.m.k. tveimur ef ekki þremur iðnfyrirtækjum sem eru ýmist þegar farin með starfsemi úr landi á síðustu mánuðum eða eru að undirbúa að flytja umtalsverða þætti starfsemi sinnar úr landi. Ekki verða til störf við það. Hér eru því býsna ískyggilegir hlutir á ferð, frú forseti.

Síðan ætlaði ég að tala um sveitarfélögin og vil þá gjarnan inna eftir því hvort hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, varaformaður fjárlaganefndar, ætlaði að heiðra okkur með nærveru sinni í þessari umræðu.

(Forseti (JBjart): Forseti gerði ráðstafanir um leið og hv. þm. hóf ræðu sína til að koma þeim boðum til hv. varaformanns fjárlaganefndar að hans væri óskað í þingsal. Það hefur enn ekki borið árangur að koma boðum til hv. varaformanns fjárlaganefndar en menn gera sér enn vonir um að til hans náist.)

Já, en nú háttar svo til, frú forseti, að mér er kunnugt um að hádegisverðarhlé ætti að vera á þessum tíma og ég er meira en tilbúinn til þess að gera hlé á ræðu minni og byrja aftur klukkan hálftvö ef það mætti verða til þess að hv. varaformaður fjárlaganendar væri þá mættur til umræðunnar. Ég ætlaði mér að taka kannski milli fimm og tíu mínútur í þennan kafla um sveitarfélögin en ég veit ekki hvort hyggilegt er að hafa það verklag á, annars er það í höndum forseta að sjálfsögðu.

(Forseti (JBjart): Ég held að það sé rétt eins og á stendur og að ekki hefur hafst upp á hv. varaformanni fjárlaganefndar að gert sé hlé á þingfundinum og hann hefjist aftur kl. 13:30.)