131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[14:18]

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Bjargvætturinn hefur talað og víst á íslensk þjóð hv. þingmanni nokkuð að gjalda fyrir þátt hans í því að koma hér á stöðugleika fyrr á tímum. En sjálfum sér verður hver sárreiðastur. Auðvitað er það bjargvætturinn sem ekki hefur staðið vaktina, því sveitarfélögin hafa ekki forustu um launamyndun opinberra starfsmanna. Það hefur hæstv. fjármálaráðherra Geir H. Haarde haft, m.a. með frægum samningum við lækna, við hjúkrunarfræðinga og ekki síst við framhaldsskólakennara. Sveitarfélögin hafa ekki gert annað en fylgja eftir launastefnu hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar og áttu enga aðra leið en að mæta sanngjörnum kröfum grunnskólakennara í því ljósi. Eina leiðin til lausnar vandanum var að mæta þeim kröfum, en ekki að svelta sveitarfélögin.

Ég held að íslensk þjóð geti unnt grunnskólakennurum þess að fá á nokkrum árum 5% hækkun umfram aðra, vegna þess hvernig staða þeirra í samanburði stéttanna var orðin. Sá 750 millj. kr. kostnaðarauki sem það veldur mun ekki ógna stöðugleikanum hér. Það er þetta fjárlagafrumvarp og fyrirætlanir um tuttugu og eitthvað milljarða skattalækkanir, hundrað milljarða útgjaldabólgnun og markleysi fjárlaga ár eftir ár og lítið aðhald hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar í ríkisfjármálunum sem sætir vaxandi gagnrýni úti í atvinnulífinu. Það þýðir ekki að skammast út í sveitarfélögin eða gera þau ábyrg fyrir þessu öllu saman.