131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[14:28]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar til þess að þakka hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni fyrir upplýsingarnar, sem ég taldi nauðsynlegt að fá fram í þessari umræðu, vegna þess að það er aldrei vikið að því að þessir samningar sem sveitarfélögin eru að gera við stéttir sínar snúa líka að ríkinu og fela í sér skuldbindingar fyrir það. Og 10 milljarðar kr. í auknar lífeyrisskuldbindingar fyrir ríkissjóð vegna þessa samnings eru töluverðir fjármunir. Menn skulu ekki halda því fram að ég sé að segja að kennarar séu of góðir af sínum launum, ég er ekki að segja það. (Gripið fram í: Þú varst að segja það.) Ég er hins vegar ... ég var ekkert að segja það. En það er nauðsynlegt að hér komi fram að þessi samningur kostar ríkissjóð 10 milljarða. Það er líka mikilvægt að fram komi að þeir sveitarstjórnarmenn sem gerðu þessa samninga, margir þeirra ábyrgir, alveg rétt, gerðu þá fyrir hönd sinna sveitarfélaga (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) og þeir munu standa og falla með sinni pólitík.