131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[14:30]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að segja eins og er að mér blöskrar málflutningur hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar. Það væri fróðlegt að spyrja, vegna þess að flokksbróðir hans, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, kemur svo oft og mælir upp í þingmanninum, hvort hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson tali hér í umboði Sjálfstæðisflokksins eða jafnvel ríkisstjórnarinnar allrar. Er hér verið að gefa út línuna?

Hv. þingmaður bætir gráu ofan á svart og nú skulu grunnskólakennarar landsins vera allsherjarsökudólgar og blórabögglar. Það skal vera þeim að kenna ef allt fer úr böndum í efnahagsmálunum og ábyrgðin þá að hinu leytinu hjá sveitarfélögunum, vegna þess hve heimskulega þau hafa samið við kennarana.

Það er talað eins og ríkisstjórnin beri enga ábyrgð vegna efnahagsstefnu sinnar eða vegna kjarasamninga sem hún hefur sjálf gert, en grunnskólakennarar bera samninga sína eðlilega saman við þá, ekki síst kjarasamninga framhaldsskólakennara. Er ekki 6% verðbólga í dag og fer hækkandi? Er ekki verið að semja í því umhverfi? Er hv. þingmaður hissa þó að grunnskólakennarar vilji a.m.k. reyna að tryggja að kaup þeirra lækki ekki á næstu mánuðum? Um hvað er hv. þingmaður að tala? Hvernig í ósköpunum á að ætlast til þess að þessi stétt ljúki gerð kjarasamninga til fjögurra ára öðruvísi en að þar séu einhverjar launahækkanir innibyggðar, þannig að a.m.k. séu sæmilegar líkur á að koma út á núlli? Hv. þingmaður talar eins og að frá og með morgundeginum verði núll prósent verðbólga á Íslandi næstu fjögur árin. Mér finnst bjargvættinum vera farið að skjöplast eitthvað í útreikningunum. (Gripið fram í.) Og er verið að fara fram á að sveitarfélögin felli samninginn? Er það línan sem ríkisstjórnin er að gefa hérna út, eða er jafnvel verið að hóta lögum ef samningurinn verður samþykktur?