131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[14:34]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér fannst hv. þingmaður vera að reyna að ná sér aðeins niður, hann útilokaði ekki að einhverjir fleiri en grunnskólakennarar gætu hugsanlega borið einhverja ábyrgð á ástandinu. Það er framför. Hv. þingmaður svaraði því litlu hvernig grunnskólakennarar ættu að semja til fjögurra ára í 6% verðbólgu, með þær þensluhorfur fram undan sem þjóðhagsspá og margt fleira bendir til að verði, án þess að reyna að taka tillit til þess í einhverjum kauphækkunum í þrepum á komandi árum. Hvernig vill hv. þingmaður ganga frá kjarasamningum við þessar aðstæður? Sú 6% verðbólga sem við stöndum frammi fyrir núna er ekki grunnskólakennurum að kenna, ekki bjuggu þeir hana til. Þeir hafa ekki fengið kauphækkanir að undanförnu, það vitum við. Þar verða aðrir að líta í eigin barm.

Það sem mér sárnaði í málflutningi hv. þingmanns, það hneykslaði mig og mér blöskraði uppleggið í ræðu hans, að gera grunnskólakennarana og kjarasamninga þeirra, og svo sveitarfélögin, að algjörum blórabögglum. (Forseti hringir.) Að allsherjarábyrgðaraðilum þess ef hlutirnir færu úr böndum í efnahagsmálum.

Ég fagna því að hv. þingmaður er byrjaður að draga í land, en hann má draga miklu (Forseti hringir.) meira í land.