131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Áhrif verðsamráðs olíufélaganna á skatttekjur ríkissjóðs.

[15:29]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Sú eðlilega krafa er gerð að olíufélögin og stjórnendur þeirra skili til baka til neytenda gróðanum af ránsfengnum vegna brota þeirra á samkeppnislögum. Talið er að ávinningur olíufélaganna hafi verið um 6,5 milljarðar kr. Einnig hefur verið kallað eftir því að stjórnvöld sjái til þess að eftirlitsstofnanir verði í stakk búnar til að fylgjast með því að olíufélögin velti ekki kostnaði af sektargreiðslum vegna samráðsins yfir á neytendur í hærra verði á vöru og þjónustu. Útgjöld heimilanna eru þegar orðin ærin vegna þessa þjófnaðar þótt það bætist ekki við.

Nú er gerð sama krafa til ríkisins, að það skili til neytenda hagnaði sínum af ránfeng olíufélaganna. Sú krafa hefur m.a. komið fram hjá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda. Ríkið hefur tekjur af eldsneyti í formi bensíngjalds og virðisaukaskatts á eldsneyti. Auknar tekjur ríkisins af samráði olíufélaganna koma aðallega fram í auknum virðisaukaskatti af bensíni. Það skýrist einkum af því að bensíngjald leggst ofan á innkaupsverð eldsneytis og fyrirtækin fá endurgreiddan útskatt af dísilolíu og gasi þannig að svindlið þar eykur ekki nettótekjur ríkisins. Ránsfengurinn á þeim sviðum skilar sér þó í auknum framlegðaráhrifum á hagnaði olíufélaganna.

Fram hefur komið í skýrslu Samkeppnisstofnunar að samráð olíufélaganna hafi hækkað framlegð fyrirtækjanna, sem glöggt hafi komið fram á árunum 1996–2001. Í skýrslunni kemur fram að á þeim árum hafi verið seldir 1.129 millj. lítra af bílabensíni. Sérfræðingar sem skoðað hafa þetta mál með mér áætla að með tilliti til 6,5 milljarðs kr. aukinnar framlegðar vegna samráðsins sé um að ræða rúmar 2 kr. á hvern lítra á þessa 1.129 millj. lítra sem olíufélögin svindluðu á fólki. Það gerir í framlegðaraukningu um 2,3–2,5 milljarða kr. Virðisaukaskattur af því er hátt í 600 millj. kr. Þannig hefur ríkið haft nálægt 600 millj. kr. í virðisaukaskatt af því ránsfé sem olíufélögin náðu af fólkinu gegnum ólöglegt samráð á bensínverði.

Ég þykist viss um, af því að hæstv. fjármálaráðherra er sanngjarn maður, að hann vilji skoða hvernig best sé að skila þessum fjármunum aftur til skattgreiðenda þegar fyrir liggur að ríkissjóður hefur hagnast um hundruð milljóna á þessum þjófnaði. Það væri hægt að gera með því að ríkið lækkaði hlut sinn í skattlagningu á bensíngjaldi um 2–3 kr. sem skilaði þar með neytendum aftur um 600 millj. kr. Það gæti um leið haft jákvæð áhrif til lækkunar á vísitölu og verðbólgu og þar með kjarasamninga aðila á vinnumarkaði en ASÍ hefur haldið því fram að aukin verðbólga stefni kjarasamningum í hættu.

Miðað við að vörugjald af bensíni, sem nú er rúmlega 11 kr. á hvern lítra, lækkaði um 2,50 kr. þá skilaði ríkissjóður til baka nálægt 600 millj. kr. Bensínverðið mundi þá lækka um 3% og vísitöluáhrifin yrðu um 0,1%, sem væri um leið jákvætt innlegg til lækkunar á verðbólgu. Reyndar ætti að ganga lengra og ríkisvaldið ætti að beita sér fyrir því að allar sektargreiðslur vegna þessara lögbrota skiluðu sér í lækkun á eldsneytisverði.

Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra hvort hann sé reiðubúinn að láta Ríkisendurskoðun eða aðra þar til bæra aðila skoða ávinning ríkisins af þessu svindli og í framhaldi af því verði fjármagninu skilað aftur til fólksins. Hæstv. fjármálaráðherra þekkir þá meginreglu skattalaga að ef sýnt er að teknir hafi verið of miklir skattar af fólki miðað við tekjur þá greiði ríkið því oftekna skatta til baka. Sama gildir ef fólkið fær ofgreiddar bætur, barnabætur eða vaxtabætur svo dæmi sé tekið. Þá gerir ríkið þá kröfu til fólksins að ofteknum bótum sé skilað aftur. Sama á auðvitað að gilda nú þegar fyrir liggur, og varla hægt að mótmæla því, að ríkið hefur haft óeðlilegar skatttekjur af lögbroti. Þeim á undanbragðalaust að skila til baka til fólksins.

Það er ólíðandi, herra forseti, að ríkið hagnist á lögbroti olíufélaganna. Það væri til að kóróna þetta hneykslismál, þetta stærsta samsæri Íslandssögunnar gegn neytendum, ef fólk þarf líka að greiða skatt til ríkisins af þjófnaðinum.