131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Áhrif verðsamráðs olíufélaganna á skatttekjur ríkissjóðs.

[15:39]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er enginn vafi á því að samráðshneyksli olíufélaganna er eitt stærsta mál sinnar tegundar hér á landi, a.m.k. sem upplýst hefur verið að nokkru leyti. Það eru tiltölulega traustar forsendur sem benda til margra milljarða ávinnings olíufélaganna á löngu árabili af þessu samráði. Það er rétt að sínu leyti og svo langt sem það nær að ríkið kann að hafa haft auknar tekjur af þessum þætti málsins en það kann að hafa tapað öðrum á móti.

Sá er auðvitað munur á að þeir fjármunir hafa þá gengið til landsmanna aftur í gegnum hinn sameiginlega sjóð þótt það sé fullkomlega eðlilegt að það sé rætt, í tengslum við þá sjálfsögðu kröfu að olíufélögin bæti neytendum það sem þau hafa ranglega af þeim tekið, hvort uppgjör fari einnig fram á þætti ríkisins í þessu máli.

Hitt er aftur ljóst að skaðinn af samráðinu verður í raun aldrei bættur nema að hluta með fé, þótt það sé sjálfsagt út af fyrir sig. Trúnaðarbresturinn verður aldrei bættur. Skaðinn í atvinnulífinu verður aldrei bættur til fulls. Hversu mikið betur stæðu ýmsar greinar atvinnulífs, t.d. stærsti einstaki viðskiptavinur olíufélaganna, sjávarútvegurinn, ef þær hefðu haft þá fjármuni handa á milli sem olíufélögin hafa ranglega af þeim tekið á undanförnum árum? Muna menn ekki þá tíma að olíufélögin voru áskrifendur að myndarlegum hagnaði á hverju einasta ári, jafnvel á mestu erfiðleikatímum sjávarútvegsins? Þar sá aldrei högg á vatni. Hvernig ætla menn að bæta þetta?

Verst er þó, og þar er ég algjörlega ósammála hæstv. fjármálaráðherra, að fákeppnin er vaxandi á fjölmörgum öðrum sviðum viðskiptalífsins (Forseti hringir.) og þar gefur ríkisstjórnin vont fordæmi, m.a. með einkavæðingu sinni.