131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Áhrif verðsamráðs olíufélaganna á skatttekjur ríkissjóðs.

[15:52]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Það sem ég ætla að gera að umtalsefni eru viðbrögð stjórnarflokkanna við svindlinu á almenningi. Viðbrögð stjórnarflokkanna við því að allir þeir sem dældu eldsneyti á bíla sína voru hafðir að fíflum, svo maður noti orð sjálfra svindlaranna, hafa einkennst af tómlæti. Ef maður skoðar ummæli stjórnarþingmanna, sérstaklega sjálfstæðismanna í umræðunni þegar við ræddum þessi mál fyrr í vikunni, kom fram hjá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni að þetta væru einhverjar eftirhreytur frá því viðskiptaumhverfið hefði verið að breytast. Sama mátti heyra hjá öðrum þingmanni sem sló úr og í varðandi þetta samráð. Það var eins og þetta væri ekkert stórmál.

Það má segja að þeir sem svo tala fylgi línu hæstv. utanríkisráðherra, foringja síns, hvað þetta varðar. Hann hefur dregið úr því að sekta ætti þessa olíufursta, það muni einungis renna út í verðlagið. En svo kveður við breyttan tón í umræðunni í dag. Nú heyrir maður á hæstv. fjármálaráðherra að um óverjandi gjörning sé að ræða. En síðan tekur ekki betra við, hann dregur úr og nefnir til sögunnar ágæta skýrslu sem hann segir að komi frá Hagfræðistofnun Háskólans. Nú er háskólinn búinn að sverja þessa skýrslu af sér. Þá skýrslu unnu einungis tveir menn í þágu olíufélaganna.

Því fer fjarri að Framsóknarflokkurinn sé saklaus í þessu máli. Hann hefur einnig sýnt því tómlæti. Hann hefur sérstaklega sýnt tómlæti sjálfri Samkeppnisstofnun. Samkeppnisstofnun hefur verið í fjársvelti við að rannsaka mál sem varða almenning. Það er náttúrlega alvarlegt og Framsóknarflokkurinn ber þunga ábyrgð á því að slík mál hafi ekki verið kláruð, bæði (Forseti hringir.) hvað varðar olíusamráð og tryggingasamráð.