131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[16:28]

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Menn taka mið af þeim veruleika sem þeir búa við hverju sinni. Grunnskólakennarinn sem horfir á skattalækkanir sem færa honum andvirði eins bleyjupakka veit líka að svo er hagstjórn ríkisstjórnarinnar um að kenna að verðbólgan mun ákaflega fljótt éta upp þann litla kaupmáttarauka sem í skattalækkununum felst.

Veruleikinn sem blasir við er einfaldlega sá að hér er verðbólga farin úr böndum þó að hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni þætti þetta bara vera skot sem liði hjá — eins og ég skildi mál hans í sjónvarpsþætti í gær — en þetta gerir það að verkum að menn vega launahækkanirnar sem eru í boði á kvarða verðbólguþróunarinnar.

Niðurstaðan er auðvitað alveg augljós. Ef við tökum mið af grunnskólakennurum og þeim kauphækkunum sem þeim voru boðnar í miðlunartillögunni er það bara ljóst að lítið yrði eftir og í sumum tilvikum ekkert þegar verðbólgan væri búin að éta sinn hlut af þeim.

Verðbólguþróunin er einfaldlega orðin töluvert öðruvísi, eins og hv. þm. rakti, en menn ætluðu þegar þeir lögðu í þennan vetur. Hagstjórn ríkisstjórnarinnar hefur verið slík að hún hefur ekki lengur tök á verðbólgunni. Gáleysislegar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um skattalækkanir upp á tugi milljarða hafa verið mjög eyðsluhvetjandi og þær hafa ýtt undir einkaneyslu sem skapar miklu hærri viðskiptahalla en menn áttu von á. Hann er eðlilega farinn að veikja undirstöður gengisins og það er því miður mjög líklegt að þetta muni leiða til þess að verðbólgan kunni enn frekar að fara úr böndunum þegar viðskiptahallinn hefur greitt sitt þunga högg og lokahögg á núverandi stöðu krónunnar.