131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[16:30]

Kristinn H. Gunnarsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi kjör grunnskólakennara sérstaklega hef ég skilið mál þeirra svo að þær breytingar sem urðu í kjölfar síðasta kjarasamnings höfðu áhrif á heildarlaun þeirra. Kannski drógu líka breytingar, sem voru afleiðing af pólitískri stefnumörkun um einsetningu skólanna og lengingu skólaársins, úr möguleikum kennara til heildarlauna, gátu lækkað heildarlaunin. Ef við skoðum tölur um tekjur framhaldsskólakennara annars vegar og grunnskólakennara hins vegar er ekki mikill munur á þeim varðandi dagvinnulaun en aftur mikill á heildarlaunum. Vandinn hefur kannski meira brunnið á kennurum vegna þess að möguleikar þeirra til tekjuöflunar umfram föstu launin hafa minnkað.

Ég tek alveg undir það með hv. þingmanni að ef svo illa tekst til að verðbólgan fer meira af stað en orðið er og menn fá á sig gengisfellingu eða harða gengisaðlögun eins og stundum er talað um erum við býsna illa sett. Við verðum töluverðan tíma að vinna okkur út úr því. Enginn græðir á þeirri stöðu. Þess vegna skiptir engu máli að ræða um það hverjum er hvað að kenna í þeim efnum. Aðalatriðið er: Hvað getum við gert til að komast hjá því að lenda í þessari stöðu?

Ég er alveg sammála meginþemanu í ræðu hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar sem varð kannski kveikjan að þessari efnahagsumræðu að ef kauphækkanirnar fara yfir alla kjarasamningana held ég að við lendum í þessari stöðu. Við eigum að reyna að koma í veg fyrir að fá á okkur þennan efnahagslega óstöðugleika sem getur komið upp ef við tökum ekki fast og ákveðið á málum.