131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[17:06]

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég fagna yfirlýsingum hæstv. félagsmálaráðherra um að hann muni leita leiða í þessu efni. Ég spyr þá hæstv. ráðherra um stuðninginn sem hann hefur í það og það sem auðvitað er verið að spyrja hér um, ekki framtíðarverkefnin eða nýju verkefnin, heldur um það hvort það verði yfir höfuð gerð einhver leiðrétting á tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga við núverandi verkaskiptingu í þeirri nefnd sem er að störfum — eða hvort yfirlýsingar þingmanna Sjálfstæðisflokksins hér í dag þýða að á grunni núverandi verkaskiptingar verði engar almennar leiðréttingar gerðar á tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Ef svo er er alveg hægt að hætta viðræðunum þegar á morgun, hæstv. félagsmálaráðherra.