131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[17:10]

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það var í desember í fyrra, að ég ætla, að gerðar voru breytingar á lögum um laun þingmanna og ráðherra. Þessar breytingar voru fyrst og fremst og eingöngu um það að hækka laun formanna stjórnarandstöðuflokkanna. Hinn almenni þingmaður fékk ekki launabreytingu. Hins vegar var samþykkt að hann borgaði einu prósenti meira inn í sinn lífeyrissjóð en áður hafði verið í lögum. Þannig varð raunlækkun almenns þingmanns, bæði mín, herra forseti, svo og allra annarra þingmanna, 1%.

Það er því mjög ósvífið þegar hv. þm. Helgi Hjörvar kemur hér og segir að ég hafi með atkvæði mínu aukið stórkostlega greiðslur til mín. Ég vona, hæstv. forseti, að þessi hv. þm. hafi lært það heima hjá mömmu sinni að það er ljótt að ljúga. Það er andstyggilegt að búa til hreinar lygasögur þó að menn séu í miklum þvælingi með málflutning sinn.

Ég ætlast til þess að hv. þingmaður biðji mig og aðra afsökunar á svona kjaftæði.