131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[17:12]

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þá höfum við það. Eftirlaunafrumvarpið sem afgreitt var á Alþingi hafði í för með sér kjararýrnun fyrir hv. þm. Einar Odd Kristjánsson. (EOK: Og þig líka.) Ég held að við þurfum að fara nokkuð betur yfir það, ég og hv. þingmaður, hvernig útgjaldaaukinn var í hinum auknu réttindum í því frumvarpi. Ég man ekki betur en að skuldbindingin sem reiknuð var út hafi numið hundruðum millljóna króna þó að það sé út af fyrir sig rétt hjá hv. þingmanni að hún sneri fyrst og fremst að lífeyrisréttindum ráðherra. Kannski orð mín hafi nokkuð mótast af þeirri skoðun að rétt væri að hv. þingmaður ætti eftir að verða það.

Ég vildi hins vegar ítreka spurningu mína til hv. þingmanns: Telur hann að verðbólguþróunin og kjaraþróunin kalli á það að ríkisstjórnin nú eða eftir þá samninga sem fram undan eru endurmeti áform sín um skattalækkanir með það að markmiði að halda aftur af verðbólguþróun í landinu? Ég tel að þetta sé grundvallarspurning um það að viðhalda hér stöðugleikanum. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, eins og ég nefndi í fyrri ræðu minni, á miklar þakkir skildar fyrir aðild sína að því að koma hér á stöðugleikanum í upphafi. Ég held að það skipti þing og þjóð miklu máli að afstaða hans í þessu efni liggi hér fyrir skýr og ljós.