131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[17:14]

Gunnar Birgisson (S):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2004 og ætla ég aðeins að koma inn á það og síðan inn á þau málefni sem hafa verið rædd hér, þ.e. kjarasamninga við grunnskólakennara.

Það sem vekur athygli mína í fjáraukalögum á hverju ári er að alltaf hækkar allt það sem kemur til útgjalda, alveg sama hvernig á stendur. Það eru einkum tvö atriði hérna. Þótt ýmislegt megi tína til vekur mesta athygli Landspítali – háskólasjúkrahús þar sem framlag til hans hækkar um tæplega 700 milljónir. Ef ég man rétt voru framlögin hækkuð um 1,8 milljarða á síðasta ári. Þá var talið að loksins yrði búið að gera allt klárt og þessi framúrkeyrsla mundi ekki gerast aftur. Ég spyr þá fjárlaganefndarmenn sem hér eru, og aðallega heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra: Hvernig í ósköpunum stendur á því að þetta geti gerst ár eftir ár? Hér eru aðrir liðir eins og lyfjakostnaður og annað. Ef menn væru með heimilisbókhaldið sitt hér blöskraði þeim. Eins og ríkissjóður er getur þetta ekki gengið svona endalaust. Hvaða tölur verða á næsta ári?

Hitt atriðið sem vekur athygli mína er hækkun á fæðingarorlofi upp á tæplega milljarð, 880 milljónir eða eitthvað slíkt. Ef ég skil rétt er fæðingarorlof komið upp í tæpa 7 milljarða. Þetta var náttúrlega til umræðu fyrir tæpu ári í þinginu. Þá kom hæstv. félagsmálaráðherra með breytingar á lögum um fæðingarorlof sem var talið að mundi draga úr misnotkun á þessu. Þetta heldur áfram að aukast og einhvern tímann lögðum við úr vör með að þetta ættu að vera 4 milljarðar en nú eru þetta orðnir 7 milljarðar. Ég spyr: Getur þetta gengið til lengdar, hefur velferðarkerfið hjá okkur efni á því að þetta gangi svona til? Þetta er allt saman góð hugsjón en það verður kannski að huga að því hvað er debet og hvað er kredit.

Hér sé ég að Þjóðleikhúsið er með 57 milljónir.

Hér sé ég að 113 milljónir eru hjá ríkislögreglustjóra. Framlagið til þess embættis virðist hækka á hverju ári líka, vera í einhverjum sjálfvirkum hækkunargír. Mér finnst að menn verði að staldra hér við og stoppa þetta ef þeir ætla að geta rekið hér fjárlög í framtíðinni á réttu róli.

Svo komum við, virðulegi forseti, að því sem var rætt hér, kjarasamningi grunnskólakennara og sveitarfélaganna sem var gerður í gær, og ræðu hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar. Ég held að allir hafi haft gott af að hlusta á þá ræðu þó að ég sé kannski ekki sammála öllu sem þar kom fram. Ég óttast að þessi samningur hafi í för með sér þau áhrif að við getum átt von á aukinni verðbólgu. Það eru nokkur atriði sem er rétt að fara yfir í þessu sambandi.

Ef hækkun á launum kennaranna er það mikil — við erum að tala um að í þessum samningi er 130 þús. kr. eingreiðsla á þessu ári, 1. október 5,5% hækkun, 1. janúar á næsta ári, þ.e. núna um áramótin, eru 3% og á miðju næsta ári kemur 75 þús. kr. eingreiðsla og síðan 1. júlí kemur 9,27% hækkun. Á síðari árunum, 2006, 2007 og 2008, koma 2,5% og svo 2,25% tvisvar sinnum. Öll hækkunin kemur núna og síðan á næsta ári. Væntanlega munu aðrir starfsmenn, leikskólakennarar og aðrir opinberir starfsmenn, fara fram á lágmark það sama ef ég þekki dæmið rétt, og er ég búinn að vera alllengi í kringum þetta. Það þýðir væntanlega að þeir sem hefðu gert — þ.e. almenni markaðurinn vill fá það sama sem er eðlilegt. Við tölum nú ekkert um lífeyrissjóðsréttindin.

Það þýðir þetta: Er til fyrir þessum launahækkunum? Maður spyr sjálfan sig að því. Ef það er ekki til fyrir þeim á almenna markaðnum og við höfum ekki nægilega mikla framleiðniaukningu í greinunum grefur náttúrlega undan krónunni og við fáum hér harða gengisaðlögun og síðan verðbólgu. Ef verðbólgan fer hærra en launahækkanir rýrna kjörin sem því nemur. Þetta er mjög einfalt reiknisdæmi. Og það óttast ég. Það óttast ég með þessum samningum þótt ég hafi verið mjög ánægður með að samningar tækjust. Þetta var orðið neyðarástand, börnin búin að vera á áttundu viku án kennslu. Ástand í kennarastéttinni skelfilegt, ég tala nú ekki um hvað þetta reyndi mikið á heimilin í landinu.

Ég hef verið talsmaður þess að kennarar fái bætt kjör, þó með þeim hætti að við héldum stöðugleikanum í samfélaginu, í efnahagslífinu. Ef hann fer fer allt. Menn reyndu hérna í áratugi áður. Ég hélt að við værum búin að fá nóg af þessu. Þetta er allt saman reiknanlegt. Ég átta mig ekki á því af hverju menn eru að fara svona út yfir mörkin í þessu. Það er stórhættulegt. Ég vona svo innilega að til þess komi ekki en ég óttast það. Ég er alveg klár á því að hvorki leikskólakennarar né opinberir starfsmenn ætli sér að fá minni launahækkanir en grunnskólakennarar. Ábyrgð sveitarstjórnarmannanna og líka grunnskólakennara er mikil í þessu sambandi. Ég er ekki viss um að grunnskólakennarar hafi lagt upp með það að skrifa undir þessa samninga með það í huga að kjör þeirra mundu rýrna. Nei, þau áttu að aukast og það vildu allir.

Síðan kemur að hinum þætti málsins og hann varðar tekjur sveitarfélaganna. Duga þær fyrir þessum launahækkunum? Það kom fram, virðulegi forseti, hjá forseta borgarstjórnar Reykjavíkur að skattahækkanir borgarinnar dygðu ekki fyrir breytingu á launum grunnskólakennara, hækkunum á næsta ári. Fyrir mitt sveitarfélag, Kópavog, þýðir þetta 200 millj. kr. aukningu. Ef við skoðum t.d. borgina getum við reiknað með að leikskólakennarar og aðrir starfsmenn séu a.m.k. jafnmargir eða jafnvel fleiri en grunnskólakennararnir og þá geti kostnaðarauki borgarinnar á næsta ári verið 2–3 milljarðar. Það er ekki til fyrir því. Ætla menn að reka á halla, eða hvað?

Hjá Kópavogsbæ gæti þetta þýtt 400 millj. kr. Hvernig verður ástandið hjá þeim sveitarfélögum sem reka sig núna í kringum núllið og sum hver í halla?

Ég er sammála félagsmálaráðherra í því að það er útilokað að sveitarfélag geti sent ríkinu reikninginn vegna kjarasamninga. Það er ekki hægt. Í launaáætlunum sveitarfélaga fyrir árið 2004 er náttúrlega reiknað með ákveðnum launabreytingum. Svo mun væntanlega verða á næsta ári. Nú erum við klár með það en launabreytingin er gífurleg. Við erum að tala um 5,5% plús 3% plús 9 og eitthvað prósent. Þetta eru gífurlegar hækkanir á mjög skömmum tíma.

Ég óttast neyðarástand hjá sveitarfélögunum, neyðarástand eftir að menn verða búnir að fara í gegnum alla þessa kjarasamninga. Ég er alveg klár á því. Sem betur fer er Kópavogsbær vel rekinn og á fyrir þessu, eitt af fáum sveitarfélögum, virðulegur þingmaður, Einar Már Sigurðarson.

Síðan kom hér formaður Samfylkingarinnar, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, og réðist ómaklega á formann Sambands íslenskra sveitarfélaga, Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson. Hann er ekki hér til svara en félagsmálaráðherra gerði grein fyrir því hvað þessi endurskoðunarnefnd vegna tekjustofna milli ríkis og sveitarfélaga var að gera.

Ég er sammála einu sem komið hefur fram í umræðunni hjá ýmsum þingmönnum, bæði stjórnar og stjórnarandstöðu. Það þarf að leiðrétta þessa tekjustofna út af nokkrum atriðum, m.a. þeim að við breytinguna úr einstaklingsrekstri yfir í einkahlutafélag varð gífurlegt tekjutap sveitarfélaganna. Það var talið 1 milljarður. Við vitum það ekki. Í sveitarfélagi mínu gæti þetta numið a.m.k. 100 milljónum, ef ekki meira.

Það eru breytingar á framlögum vegna húsaleigubóta, það eru framlög vegna húsnæðismála og til félagslegra íbúða. Það eru ýmsar kröfur sem koma frá ríkisstofnunum, eins og Persónuvernd, sem kosta sveitarfélögin mikið. Auðvitað þarf að leiðrétta það. Ef við tökum þróun tekna, bæði ríkis og sveitarfélaga, hafa sveitarfélögin ekki þurft að kvarta. Sveitarfélögin hafa gert eitt, þau hafa hækkað þjónustustigið. Það er af hinu góða en maður verður að eiga fyrir því. Það er númer eitt. Við verðum að eiga fyrir því ef við hækkum þjónustustigið.

Ég get nefnt sem dæmi í mínu sveitarfélagi að þar var þáttur menningarmála ekki mikill fyrir 10–12 árum. Síðan er búið að reisa miklar byggingar um menningu, og rekstur menningar sem var örfáar milljónir í sveitarfélaginu kostar núna kannski á annað hundrað milljónir á ári. Fyrir tíu árum var knatthús ekki til í Kópavogi en nú er það til. Það kostar gífurlegt fé að reka eitt slíkt hús. Þetta er aukning á þjónustustigi. Við erum öll hreykin af því en það kostar fé.

Þá komum við að verðbólgunni sem við erum svo öll hrædd við. Hún er einn mesti bölvaldur íslensks samfélags fyrr og síðar, og verðbólga akkúrat um þessar stundir er talsverð. Akkúrat núna. Hún hleypur á milli 3 og 6 prósentna. Hver ætli sé ástæðan fyrir því? Hérna kemur stjórnarandstaðan og telur þetta allt óstjórn ríkisstjórnarinnar. Vinstri grænir vilja helst hækka skatta, hafa allt saman miðstýrt og helst að ríkið borgi öllum út í samfélaginu, öll fyrirtæki ríkisrekin og ríkið borgi út, þetta sé eins og var í Sovétríkjunum. Við vitum öll hvernig það allt saman fór.

Hvers vegna er verðbólga? Jú, það er hækkun olíuverðs, gífurleg hækkun sem hefur orðið á olíuverði, virðulegur forseti. Hér flæðir mikið af peningum þar sem bankarnir bjóða lán til fasteignakaupa upp á 90%, og nú er boðið upp á 100% lán. Þetta hefur hækkað íbúðaverð látlaust. Sú hækkun á íbúðaverði er mjög óeðlileg. Hún getur ekki haldið áfram endalaust en hún hefur orsakað hækkun verðbólgunnar.

Olíuverðshækkunin, hækkun fasteignaverðs og gífurlegt framboð af erlendum fjármunum hjá bönkunum, sem eru að dreifa þeim í íslenskt samfélag, veldur verðbólgunni.

Ég held að þetta líði hjá og verði smáskot en ef við fáum víxlverkun verðlags og launa erum við búin að hella olíu á þennan eld. Þá getur þetta brunnið upp og heimilin orðið að ösku eins og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sagði hér í dag.

Skuldir heimilanna eru 210 milljarðar, þar af eru 180 milljarðar verðtryggðir. Ef verðbólgan fer upp í 5, 10 eða 15% sér hver maður hvað það þýðir. Það stendur enginn undir því. Við megum alls ekki fara þessa leið. Alls ekki. Varnaðarorð hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar eru alveg laukrétt þótt hann hafi málað ástandið í helst til sterkum litum. Það þarf oft að gera til að vekja fólk. Ég held að við fljótum hér hálfsofandi áfram. Svo vöknum við upp einn góðan veðurdag þegar það er orðið of seint. Það þarf að grípa í taumana og fara mjög varlega.

Síðan var rætt um viðskiptahallann og aukna einkaneyslu. Hún hefur orðið vegna þessa gífurlega framboðs fjármagns. Aðalversið er samt innflutningur á efni til virkjana og byggingar álvera. Þetta er orðið breytt samfélag. Við lifum í frjálsu samfélagi. Nú er það orðinn móður í íslensku samfélagi að leigja allt, hafa rekstrarleigu á bílum. Þá náttúrlega kaupa sér allir nýja bíla, þ.e. á rekstrarleigu. Spurning er hvenær menn selja húsin sín og taka hús á rekstrarleigu.

Ég er gamaldags í hugsun. Maður dregur augað í pung og spyr: Hvar endar þetta? Þetta er eitt af þessu flæði af dóti. Menn eru með allt á leigu, tölvur og hvað næst?

Viðskiptahallinn grefur undan krónunni og auðvitað grafa of miklar launahækkanir, sem er ekki til fyrir, undan krónunni númer eitt. Ef hún fellur og við förum hér í frjálst fall — við höfum reyndar reynsluna, við höfum reynsluna af þessu frá árunum 1988–1991, þó sérstaklega 1990 þegar kaupmáttarhrapið var yfir 20%. Menn rétt mörðu að stoppa það. Við héldum að við hefðum fengið nóg af þessu þá. Þá voru menn einmitt í þessum leik, 1991 náði þetta að stöðvast og síðan komu góðir tímar þegar menn voru skynsamir. Þá höfðu menn dæmin fyrir aftan sig, að menn ættu ekki að gera svona hluti.

Ég lýsi því enn yfir að ég er mjög ánægður með að samningar hafi náðst milli grunnskólakennara og sveitarfélaganna en ég vona að þeir haldi og að við lendum ekki hér í aukinni verðbólgu vegna þess arna og víxlverkun. Ég óttast það samt. Ég tel að boginn hafi verið of hátt spenntur. Það er mitt mat. Þá töpum við öll á því, kennarar, þingmenn, allir. Það eru allir sem tapa, þjóðfélagið í heild. Við viljum ekki fara þá leið. Við erum búin að fara hana, fórum hana fyrir árið 1990, keyrðum hana alltaf látlaust í ófæru en eftir það náðum við að malbika veginn og við héldum að við gætum haldið okkur á honum. Það er óþarfi að fara út í móana aftur. Það er þessi hætta sem við verðum að horfa á. Það vill enginn fara þá leið.

Varðandi síðan sveitarfélögin verðum við sveitarstjórnarmenn náttúrlega að gæta okkar á því að reisa okkur ekki hurðarás um öxl. Það er mjög auðvelt að segja já við öllu, auka kostnað og rekstur og annað. Það er mjög auðvelt. Það er alltaf erfiðara að segja nei. Við þurfum að segja nei. Ég tel að þjónustustig sveitarfélaganna sé komið alveg á ystu nöf, enda sést það á rekstri þeirra að menn þurfa að gæta að sér. Við þurfum að horfa sjálf, sveitarstjórnarmenn, í eigin barm. Við getum ekki farið til ríkisins og sagt: Ja, nú erum við búin að gera kjarasamning við leikskólakennara eða kjarasamning við almenna starfsmenn, BSRB, og nú þurfum við að fá svolítið meira. Við hækkuðum þetta heldur meira en við ætluðum og þurfum að fá smákropp í viðbót. Slíkt er ekki hægt. Við verðum að bera gæfu til þess að segja nei.

Hitt er svo annað mál að ríkið verður að lagfæra og leiðrétta þá villu sem er komin í tekjur sveitarfélaganna, tekjuskiptinguna, t.d. með yfirfærslu á, eins og ég sagði, einstaklingsrekstri í einkahlutafélög og mörg önnur atriði. Ég hef verið áhugamaður um þessi mál og tínt þetta upp í gegnum árin. Breytingar hjá ráðuneytunum á reglugerðum og lagabreytingar sem fer lítið fyrir, svífa jafnvel í gegnum þingið, kosta peninga. Auknar kröfur kosta peninga, aukið þjónustustig sem við samþykkjum á þinginu. Það er það sem ég vil fá leiðrétt og frá því þarf að ganga áður en við förum að tala um yfirfærslu á öðrum verkefnum til sveitarfélaganna. Það þarf að ná hreinu borði fyrst.

Virðulegur forseti. Ég fagna umræðunni um þessi launamál almennt. Ég held að menn þurfi að vakna upp og ræða þetta hreinskiptið. Menn þurfa ekki að vera með nein gífuryrði í garð hver annars, við verðum að fara raunhæft í þessi mál.

Við vitum að ef við hækkum laun of mikið fáum við aukna verðbólgu og þá minnka kjarabæturnar. Það verður kjararýrnun. Við höfum átt því láni að fagna frá 1991 að laun — við höfum fengið kjarabætur látlaust fram að þessum degi og aukna velmegun. Hún er ein sú mesta í heiminum. Svo koma hingað hv. þingmenn eins og Steingrímur J. Sigfússon og tala um að þetta sé alveg hroðalegt, að við séum með langtum lægri laun en gildir annars staðar á Norðurlöndum og að við vinnum langtum meira en þeir, þetta sé alveg skelfilegt. Ég held að þessir þingmenn vilji hafa þjóðina í fríi og helst á fullum launum eða meira til. Það gengur ekki.

Þeim tókst vel til eða hitt þó heldur og ég vil minna á frammistöðu vinstri stjórnarinnar 1988–1991 sem var einhver mesta skelfing fyrir íslenskt samfélag. (Gripið fram í: Þjóðarsáttin.) Síðan kom þjóðarsáttin en hún var ekki ríkisstjórninni að þakka, það voru aðilar vinnumarkaðarins sem stóðu að henni. Ég gæti haldið langar ræður um hana, við vorum þátttakendur í henni, ég og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, og vitum nokkurn veginn hvernig hún var. Það þarf ekkert að segja okkur um það.

Virðulegi forseti. Ég ætla að koma hérna með þessar spurningar varðandi fjáraukalögin. Gaman væri að fá skýringar á því hvort rétt sé að fæðingarorlofið sé komið upp í 7 milljarða og hvort þetta endalausa haldi áfram, ríkislögreglustjóri, Landspítalinn og fleira. Það virðist sem menn séu í áskrift hjá fjárlaganefnd og fái hækkun alltaf á milli ára, þ.e. af eigin áætlunum, eigin fjárhagsáætlunum. Ef menn geta ekki staðið við eigin fjárhagsáætlun verða þeir að axla þá ábyrgð.