131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[17:37]

Gunnar Birgisson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er kannski rétt að fara enn þá lengra aftur því að þetta hefur alltaf gerst í tíð vinstri stjórna, m.a. í einni frá 1980–1983 þegar virðulegur þingmaður, hv. þm. Ögmundur Jónasson, var fyrir svokölluðum Sigtúnshópi. Ekki var það betra þá.

Á árunum 1988–1990, sérstaklega 1990, átti sér stað kaupmáttarhrap. Hvers vegna var það? Verðbólgan var farin úr böndunum. Það var allt farið úr böndunum. Hvað gerðist? Jú, verkafólk þessa lands tók á sig yfir 20% kjararýrnun. Það var kaupmáttarhrap í frjálsu falli. Þannig náðist að stoppa það. Samtök atvinnulífsins og fulltrúar launþega á breiðum grunni náðu þessum samningi og auðvitað varð ríkisstjórnin að vera með í þessu, það var ljóst. Það var ekki hægt öðruvísi og hún gat ekki annað, en það var ekkert frumkvæði af stjórnarinnar hálfu í málinu. Hún var orðin ráðalaus.

Ég þarf svo sem ekkert að ræða það meira. Þetta var skelfingartímabil. Eftir það hefur ástandið verið upp á við þannig að kjarabætur og aukning lífskjara hefur farið upp á við síðan og er núna með því besta sem gerist í heiminum, hér á Íslandi. Alls staðar sem við erum mæld, á öllum alþjóðlegum skölum, erum við í efstu sætum með lífskjör af því að vel hefur verið haldið á málum síðan vinstri stjórnin fór frá 1991.