131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[17:39]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt að þegar á heildina er litið hefur Íslendingum vegnað vel á undanförnum árum. Það sem hins vegar er áhyggjuefni er sú aukna misskipting sem er að verða í samfélagi okkar og hve erfitt ýmsir hópar eiga uppdráttar, þeir sem eru veikir eða hafa litlar tekjur, hve erfitt það fólk, þeir hópar, á með að afla sér húsnæðis svo dæmi sé tekið. Þessi mikla misskipting í samfélaginu hlýtur að verða okkur áhyggjuefni.

Hv. þingmaður fór í frekari sögulega upprifjun og nefndi Sigtúnshópinn. Ég man vel eftir þeim tíma, 1983, þegar vísitala launa var tekin úr sambandi en lánavísitalan látin æða upp á við. Það var ágætur fjármálaráðherra frá Sjálfstæðisflokknum sem þá sat í Arnarhváli þannig að eitthvað þarf nú hv. þingmaður að taka til í sögukistunni sinni. Það var samstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks sem greip til þeirra ráða að taka launavísitöluna úr sambandi án þess að hreyfa nokkuð við lánskjaravísitölunni.

Hins vegar geta menn verið að metast um það hver hafi átt frumkvæði að því átaki sem var gert 1991. Það sem gerðist var að Samtök atvinnulífsins, bæði atvinnurekendur og launþegamegin, og ríkisvaldið sameinuðust í sameiginlegu átaki. Auðvitað er það nokkuð sem væri mjög æskilegt að tækist að skapa aftur, þ.e. grundvöll fyrir slíku sameiginlegu átaki.

Ég er ansi hræddur um að það gerist ekki með þeim (Forseti hringir.) vinnubrögðum sem hér eru viðhöfð af hálfu ríkisstjórnarinnar. (Forseti hringir.) Við höfum nú heyrt tónana sem koma t.d. frá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni sem ætlar að láta ljós sitt skína hér eftir fáeinar mínútur að nýju.