131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[18:05]

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna ummælum hv. þingmanns og vona að hann hafi umboð til að segja þetta. Ég lít þá þannig á að Samfylkingin telji samning grunskólakennaranna vera einstakan og eigi ekki að vera fyrirmynd annarra kjarasamninga. Ég tel þetta mjög mikla yfirlýsingu og treysti því að hann hafi umboð til þess.

Ég kallaði, virðulegi forseti, eftir tveimur ágætum þingmönnum, hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, formanni Samfylkingarinnar, og hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni vegna þess að ég saknaði þess að þeir kappar væru ekki hér þegar ég talaði eins og þeir höfðu kallað á mig. (Gripið fram í.) Síðan brá svo við að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon mætti og ég fagna því. Ég var aðeins að kalla á þá vegna þess að ég vildi að þeir væru hér eins þeir höfðu óskað eftir nærveru minni. Ég var ekkert að kalla nein ókvæðisorð í garð þeirra, alls ekki.

Hins vegar tek ég það mjög skýrt fram að ég er alls ekki viss um að breytingar á skattkerfi hafi úrslitaáhrif á þróun verðbólgu á Íslandi á næstu árum. Ég tel hins vegar mjög þýðingarmikið að hið opinbera, bæði ríki og sveitarfélög, fari afspyrnu varlega og reyni af fremsta megni að sporna gegn aukinni samneyslu og auknum rekstrarkostnaði hins opinbera. Ég tel að það sé miklu þýðingarmeira og þar verðum við að standa vörð sem gæti ráðið heilmiklu um hver úrslitin yrðu.