131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[18:07]

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmenn þurfa ekki að láta orð mín um kjarasamning grunnskólakennara áðan koma sér á óvart, það hefur komið skýrt og greinilega fram í máli formanns Samfylkingarinnar, hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, að m.a. vegna samanburðar við framhaldsskólakennara hlytu menn að kalla eftir sérstökum leiðréttingum fyrir grunnskólakennara og það sé þess vegna í þeim skilningi einstakur samningur.

Það er samt ekki þannig, hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, að það sé bara einn kjarasamningur gerður í landinu. Það er ekki bara ein stétt í landinu og einhver einn ríkissamningur sem ákveðnir aðilar hafa forræði fyrir. Það eru margar og ólíkar stéttir í landinu sem hafa margar og ólíkar þarfir og mismunandi stöðu frá einum tíma til annars. Það er því ekki hægt að taka eina ákvörðun um hvað allir eigi að fá í hlut sinn, eða hefur Sjálfstæðisflokkurinn alveg snúið baki við hugmyndum sínum um framboð og eftirspurn, frelsi einstaklingsins og frjálsa samninga á markaði? Það væri nærri að álykta svo af orðum hv. þingmanns.

Hann forðaðist auðvitað að ræða um skattalækkanirnar nema að því litla leyti sem hann lýsti í ræðu sinni, ríkisfjármálastefnu ríkisstjórnarinnar. Hv. þingmaður sagði: Við eyðum því sem aflað er. Hann sagði: Skattstigið ræður eyðslunni. Það er ákaflega góð lýsing á því hvernig núverandi ríkisstjórn hefur haldið á ríkisfjármálunum. Á þessu mikla þensluskeiði hafa útgjöldin þanist jafnmikið því öllu hefur verið eytt sem aflað var og það hefur valdið verðbólguþrýstingnum. En það er langt í frá þannig að í vestrænum ríkjum tíðkist það almennt og sé almenn regla.

Við þurfum ekki annað en að líta yfir hafið til Noregs og sjá þar sjóðinn fyrir komandi kynslóðir, svo dæmi sé tekið um ráðstafanir þar sem menn hafa aflað fjár til ríkissjóðs, fyrir sparnað og ráðdeild lagt það fé fyrir en sólundað því ekki eins og stjórnvöldin sem nú sitja. (Gripið fram í: Þetta er eins og ræða í borgarstjórn.)