131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[18:12]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér skilst að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hafi tekið að sakna viðveru minnar. Þá hafa orðið hlutverkaskipti frá því um hádegi þegar ég óskaði eftir því að fá hann til skrafs og ráðagerða sem má segja að hafi dregið nokkurn dilk á eftir sér, sem sagt umræðu sem staðið hefur linnulaust í sex klukkutíma í framhaldinu. (EOK: Mikil er ábyrgð þín.)

Ég gat ekki betur heyrt en að hv. þingmaður væri því miður enn við sama heygarðshornið og þó hv. þingmaður reyni að segja nú að hann hafi ekki í fyrri ræðu sinni í dag einkum verið að gera grunnskólakennara og kjarasamninga þeirra að allsherjar blóraböggli og ábyrga á einu bretti fyrir því ef stöðugleikinn færi fyrir borð í efnahagsmálum þá tjáir það auðvitað ekki. Það heyrði fjöldi þingmanna á hvaða nótum hv. þingmaður talaði.

Hv. þingmaður reyndi og reynir enn algerlega að stikkfría hæstv. ríkisstjórn, eins og það skipti engu máli hvernig hún hefur staðið að málum, og grætur svo einsemd sína í hinu orðinu sem eina manninn sem vari við og reyni að tala fyrir einhverri ábyrgð í þessum efnum. Það er meira hlutskiptið að vera bara aleinn að reyna að hafa vit fyrir mönnum. (Gripið fram í.)

Ég verð að segja að mér finnst hv. þingmaður ansi svartsýnn — eða er stöðugleikinn svo brothættur, er hinn glæsti árangur hv. þm. Davíðs Oddssonar og ríkisstjórnar hans ekki meiri en svo að það fjúki allt fyrir borð í einum samningum?

Ég skal segja hug minn allan í því hvað ég tel að sé hættulegast fyrir íslenskt efnahagslíf og stöðugleikann um þessar mundir.

Það er viðskiptahalli upp á 100–160 milljarða ár eftir ár.

Það er glórulaus stóriðjustefna þar sem er opið hús fyrir innstreymi erlends fjármagns sem setur allt úr skorðum.

Það eru skattalækkanirnar sem eru út úr kú við núverandi ástand í hagkerfinu, eru fráleitar, að hleypa í umferð 20–30 milljörðum kr. á nokkrum árum. (Forseti hringir.)

Þetta er hættulegt, af þessu er ástæða til að hafa áhyggur og á þessu ber hæstv. ríkisstjórn og stuðningsmenn hennar ábyrgð.