131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[18:19]

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var mjög þýðingarmikið að fá þetta fram. Nú vitum við hvað þessi stjórnmálaflokkur, vinstri gulir, rauðir, grænir, er. Nú vitum við hvað hann er. Nú vitum við að þeir bíða og ætla sér að styðja kröfur ríkisstarfsmanna um að þeir fái betri og meiri launahækkanir sér til handa en hinn almenni markaður. Þetta er stefnan, hann er búinn að viðurkenna það.

Úr því að svo er kemur það í minn hlut að endurskoða — skyldi nú ekki eitthvað hafa verið rétt í því svartsýniskasti sem ég fékk hérna í dag yfir stöðunni? Því miður virðist eitthvað vera til í því, hinu mikla svartsýniskasti sem ég var að vona að væri bara hugarburður minn. Nei, það er sko ástæða til að vera á varðbergi gagnvart pólitískum öflum sem sjá ekki lengra fram fyrir sig, ekki fram fyrir nefið á sér af ábyrgðarleysi. Ábyrgðarleysið er algjört, þeir eru í þoku.

Ég tek eftir því að hv. 9. þm. Reykv. s., formaður BSRB, hefur ekki enn þá komið og talað. Ég bíð eftir að hann komi og ég vil endilega heyra hvað hann hefur að segja þó að ég eigi enga kröfu á hann, það er rétt. Ég vil samt að hann komi hér og svari mér. Hann getur þagað vegna þess að þögnin er líka svar.